„Allahu akbar,“ hrópuðu grímuklæddu mennirnir sem réðust inn á fund ritstjórnar Charlie Hebdo í morgun. Þetta var sennilega eitt af því síðasta sem Stephane Charbonnier, ritstjóri blaðsins, heyrði áður en hann var myrtur. Orðin þýða: guð er mikill.
Charbonnier var í daglegu tali kallaður „Charb“. Hann náði aðeins 47 ára aldri. Lögregla gætti skrifstofa blaðsins þar sem honum og öðrum starfsmönnum blaðsins höfðu borist líflátshótanir síðustu ár.
Hann var stuðningsmaður franska Kommúnistaflokksins og varði ítrekað teikningar blaðsins sem sýndu spámanninn Múhameð. „Múhameð er ekki heilagur í mínum augum,“ sagði Charb í samtali við fjölmiðla árið 2012 eftir að sprengjum var varpað á skrifstofur blaðsins.
„Ég áfellist múslima ekki fyrir að hlæja ekki að teikningum okkar. Ég lifi samkvæmt frönskum lögum, ekki lögum Kóransins.“
Ádeila blaðsins beindist þó ekki aðeins að íslam heldur einnig að hægriflokkum landsins, gyðingdómi og kaþólskri trú.
Í belgíska dagblaðinu La Libre Belgique segir að teikning eftir Charb sem birtist í þessari viku hafi verið sérstaklega áleitin. Teikningin sýndi herskáan íslamista.
Henni fylgdi fyrirsögnin „Enn engar árásir í Frakklandi“ og segir íslamistinn: „Bíddu! Við höfum enn til loka janúarmánaðar til að koma óskum okkar á framfæri.“
Charb sagði í viðtali við BBC árið 2011 eftir að skrifstofa blaðsins var gjöreyðilögð að árásin væri árás á frelsið sjálft. Sagði hann einnig að árásin væri á ábyrgð heimskra öfgamanna og endurspeglaði ekki múslima í Frakklandi.
Charb sagði árásina sýna að blaðið gerði rétt með að bjóða íslamistum birginn og „gera líf þeirra erfitt, alveg eins og þeir gera líf okkar erfitt“.