Að minnsta kosti fjörutíu manns komust lífs af frá skotárás sem gerð var á skrifstofur blaðsins Charlie Hebdo í morgun. Tólf eru látnir, nokkrir slasaðir, þar af fjórir lífshættulega. Tveir lögreglumenn féllu. Lögmaður blaðsins segir að meðal þeirra sem féllu séu fjórir þekktir teiknarar blaðsins: Cabu, Wolinski, Charb og Tignous. Einn þeirra er jafnframt ritstjóri blaðsins, Stephane Charbonnier, kallaður Charb. Samkvæmt frétt Sky kröfðust árásarmennirnir þess að fólk á skrifstofunni segði til nafns áður en þeir hleyptu af.
Tveir grímuklæddir menn ruddust inn á skrifstofurnar í morgun. Þeir voru vopnaðir Kalashnikov-rifflum og sprengjum. Einnig skutu þeir lögreglumann fyrir utan bygginguna af mjög stuttu færi. Hættuástandi hefur verið lýst yfir í París en mennirnir, sem taldir eru vera fleiri en tveir, eru enn ófundnir.
Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur boðað til neyðarfundar í ríkisstjórninni. Hann segir að í það minnsta fjörutíu manns hafi komist lífs af frá árásinni á skrifstofu blaðsins. Hann segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða.
Víðtæk leit stendur nú yfir af árásarmönnunum en þeir komust undan á bíl sem þeir rændu af vegfarenda fyrir utan bygginguna. Í frétt Sky-fréttastofunnar, segir að þeir hafi getað valið margar leiðir til að forða sér frá París. Þar er einnig haft eftir sjónarvotti að árásarmennirnir hafi sagt: „Við munum hefna spámannsins,“ en Charlie Hebdo hefur margsinnis birt skopteikningar af Múhameð spámanni á síðustu árum og nú síðast teikningu af leiðtoga Ríkis íslams.
Ritstjórinn, Stephane Charbonnier, oftast kallaður Charb, var fæddur 21. ágúst árið 1967. Hann varð ritstjóri Charlie Hebdo árið 2009. Charb var á lista Al Qaeda yfir eftirlýstustu menn heims árið 2013 eftir að hafa birt mynd af spámanninum Múhameð.
Charb hafði mikla reynslu af starfi við fjölmiðla. Hann var bæði skopmyndateiknari og blaðamaður. Hann var stuðningsmaður franska Kommúnistaflokksins.
Charb hafði oft verið hótað lífláti. Í kjölfarið naut hann verndar lífsvarða.
Á myndskeiðinu hér að neðan heyrist skothríðin úr byggingunni. Athugið að verið getur að uppfæra þurfi síðuna til að sjá myndskeiðið.
VIDEO. Des images de l'attaque au siège de... by francetvinfo