„Þetta var skelfilegt, hræðilegt. Við vissum að þetta væri alvarlegt af því að þeir reyndu ekki einu sinni að flytja hann á spítala. Þeir voru bara að reyna að bjarga honum þarna á götunni. Við erum öll í sjokki.“
Svona lýsir einn sjónarvotta því þegar bráðaliðar gerðu tilraun til að bjarga lögreglumanninum sem var skotinn til bana fyrir utan ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París í dag.
Í samtali við Guardian sagði starfsmaður sem vinnur á fyrstu hæð hússins þar sem skotárásin átti sér stað að skrifstofur fjölmiðilsins væru á annarri og þriðju hæð en að hann hefði ekki heyrt skothvelli.
„Við heyrðum furðulegt hljóð, en engin skot. Síðan þegar við fórum út sáum við blóð í stiganum. Mikið af blóði. Byggingin hefur verið undir lögregluvernd í nokkurn tíma,“ sagði hann.
Solveig G. Jensen, blaðamaður á Jyllands-Posten í Danmörku, sem á það sameiginlegt með Charlie Hebdo að hafa birt skopmyndir af Múhameð spámanni, sagðist ekki óttast um öryggi sitt.
„Ég held að allir þekki Charlie Hebdo í Frakklandi og viti að það birti líka skopmyndirnar. Öryggisstigið á skrifstofum okkar í Danmörku hefur verið hátt alveg síðan teikningarnar voru birtar.“
Samkvæmt Guardian er unnið að því að flytja lík þeirra sem létust í árásinni úr byggingunni. Fimm hafa verið nafngreindir: Stéphane Charbonnier, ritstjóri og skopmyndateiknari, Bernard Maris, hagfræðingur, rithöfundur og stjórnarmaður í stjórn Charlie Hebdo, og þrír aðrir skopmyndateiknarar; Jean Cabu, Georges Wolinski og Bernard Verlhac, sem er þekktur undir nafninu Tignous.
Fimm aðrir starfsmenn blaðsins eru taldir vera meðal hinna 12 látnu.
Fólk hefur safnast saman í París til að sýna samstöðu. Þá hafa Le Monde, Radio France og France Télévisions gefið út yfirlýsingu þar sem fram kemur að miðlarnir muni veita starfsmönnum Charlie Hebdo stuðning, með það að markmiði að tryggja framtíð fjölmiðilsins.
Þá bjóða þeir öðrum frönskum fjölmiðlum að gera slíkt hið sama; „að standa vörð um meginreglur sjálfstæðis, frelsisins til hugsana og tjáningar, grundvöll lýðræðis okkar“.
Elísabet drottning hefur sent Francois Hollande Frakklandsforseta skeyti, þar sem hún vottar fjölskyldum fórnarlamba árásarinnar samúð sína og Filippusar drottningarmanns.