Talið er að mennirnir sem réðust inn á skrifstofu dagblaðsins Charlie Hebdo í París í Frakklandi í dag hafi verið vel þjálfaðir bardagamenn. Tólf létust í árásinni, sem hefur verið fordæmd af þjóðarleiðtogum út um allan heim.
Í grein á vefsíðu Sky News eru talin upp dæmi sem gefa til kynna að mennirnir hafi ekki verið byrjendur þegar ofbeldi er annars vegar. „Þetta voru fagmenn,“ skrifar blaðamaðurinn Sam Kiley.
Bendir Kiley jafnframt á að þó svo að mennirnir væru öskrandi væru þeir alls ekki í uppnámi. Þeir hreyfðu sig frekar rólega og skutu hratt örugglega með byssum sínum, meðal annars vélbyssu af gerðinni AK-47. „Það þarfnast æfingar að stjórna henni og hæfileika til þess að hæfa skotmörk á hreyfingu eins og þeir gerðu,“ skrifað Riley.
Mennirnir réðust inn á skrifstofu dagblaðsins þegar morgunfundur ritstjórnar stóð yfir. Kölluðu þeir nöfn þeirra sem þeir vildu drepa til þess að hefna fyrir skopmyndir sem gerðu grín að ofstækismönnum.
Í grein sinni veltir Kiley því fyrir sér hvar mennirnir gætu hafa fengið svona mikla þjálfun. Nefnir hann mögulegt að mennirnir hafi öðlast þjálfun og reynslu hjá meðlimum Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. „En þetta gætu líka verið fyrrverandi bardagamenn uppreisnarinnar gegn hernámi Bandaríkjanna í Írak, frá vígvöllum í Afganistan, Maghreb eða öðru Afríkuríki,“ segir Kiley.
Segir hann að mennirnir gætu einnig verið bardagamenn frá Líbýu eða Líbanon.
Að sögn Kileys þurfa frönsk yfirvöld nú að komast að því hvort mennirnir vinni einir eða hvort árásin á Charlie Hebdo sé aðeins upphafið að stærri árás.
Franskar hersveitir hafa undanfarið barist gegn íslömskum ofstækismönnum í Norðvestur-Afríku og gegn Ríki íslams í Mið-Austurlöndum. Jafnframt hafa hersveitir Frakka tekið þátt í átökum í Afganistan.
Um 10% Frakka eru múslímar. 40% ungra múslíma í Frakklandi eru atvinnulaus að sögn Kileys.
Hann bætir við að aðstæður í Frakklandi, bæði pólitískt og efnahagslega séð, hafi gert það nokkuð auðvelt fyrir ofstækismenn meðal franskra múslíma að safnast saman.