Sá yngsti af hryðjuverkamönnum þremur sem réðust inn á ritstjórnarskrifstofu ádeiluritsins Charlie Hebdo í gær hefur gefið sig fram við lögreglu. Lögreglan hefur birt myndir af hinum tveimur, bræðrunum Cherif Kouachi, 32 ára, og Said, 34 ára.
Sá sem hefur gefið sig fram við lögreglu, Hamyd Mourad, er átján ára. Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar gaf hann sig sjálfur fram við lögreglu eftir að hann sá nafn sitt á samfélagsmiðlum. Hann var handtekinn og er nú í vörslu lögreglu.
Lögreglan biður alla þá sem hafa einhverjar upplýsingar um bræðurna að gefa sig fram. Þeir séu að öllum líkindum vopnaðir og hættulegir. Heimildir AP-fréttastofunnar herma að þremenningarnir séu með tengsl við al-Qaeda í Jemen en það hefur ekki fengist staðfest.
Í dag verður sorgardagur í Frakklandi og þeirra tólf sem létust í árásinni minnst. Mínútu þögn verður á hádegi og verður kirkjuklukkunum í Notre Dame hringt.
Í gærkvöldi var mikill viðbúnaður hjá sérsveitum lögreglu í borginni Reims í Austur-Frakklandi en enginn var handtekinn. Lögregla girti af fjölbýlishús í borginni og tæknideild lögreglu var þar að störfum.
Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar er í gildi í Frakklandi og eru mun fleiri hermenn og lögreglumenn að störfum en vant er. Meðal annars er sérstaklega fylgst með skrifstofum fjölmiðla, byggingum tengdum trú, samgöngum og öðrum stöðum þar sem líkur eru taldar á að framin séu hryðjuverk.
Í gærkvöldi voru haldnar minningarsamkomur víðs vegar um Frakkland og heiminn þar sem fórnarlamba árásarinnar var minnst. Mjög margir báru merki með áletruninni Je suis Charlie sem merki um samstöðu með fórnarlömbunum.
Morðingjarnir voru vopnaðir AK-47 er þeir réðust inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í 11. hverfi Parísarborgar.
Heimildir NBC News herma að tveir lögreglumenn hafi verið á vakt fyrir utan skrifstofu tímaritsins en þeirra hlutverk var að gæta ritstjórans Stephanes Charbonniers. Hann hefur verið undir lögregluvernd í nokkur ár vegna líflátshótana. Hann lést í árásinni sem og annar lögreglumannana. Hinn lögreglumaðurinn særðist í árásinni en alls særðust 11 manns, þar af fjórir alvarlega.
Skotmörk árásarmannanna voru starfsmenn tímaritsins sem höfðu teiknað og tekið þátt í birtingu skopmynda af Múhameð spámanni. Spurðu þeir fórnarlömb sín að nafni áður en þeir tóku þau af lífi.
Meðal þeirra sem voru teknir af lífi voru Charbonnier, Bernard Maris, hagfræðingur hjá Seðlabanka Frakklands sem var dálkahöfundur á tímaritinu, og þrír teiknarar. Alls létust átta á ritstjórn blaðsins og tveir lögreglumenn í árásinni.
Dæmdur í fangelsi árið 2008
Cherif Kouachi er þekktur fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum en hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi, þar af átján mánaða skilorðsbundið fangelsi, árið 2008 fyrir að senda málaliða til Íraks. Bræðurnir eru báðir fæddir í París.
Cherif var handtekinn árið 2005 ásamt öðrum Frakka í París þegar þeir voru að undirbúa ferðalag til Íraks í gegnum Sýrland. Á þeim tíma var sagt að hann væri annar af aðstoðarmönnum höfuðpaurs samtaka sem sáu um að senda unga málaliða til Íraks til þess að berjast gegn fjölþjóðaher NATO.
Þegar Cherif Kouachi var dæmdur árið 2008 höfðu fjölmiðlar eftir honum að ástæðan fyrir gjörðum hans hefði verið myndir af pyntingum bandarískra hermanna í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak.