„Heimskan mun ekki hafa sigur

Samtök belgískra blaðamanna hafa efnt til sýningar á skopmyndum sem …
Samtök belgískra blaðamanna hafa efnt til sýningar á skopmyndum sem hafa verið teiknaðar í kjölfar árásarinnar í gær. AFP

Starfsmenn Charlie Hebdo tilkynntu í dag að þeir hygðust gefa út sérstaka útgáfu blaðsins í næstu viku og verður upplagið milljón eintök. Pistlahöfundurinn Patrick Pelloux sagði í samtali við AFP að ætlunin væri að sýna fram á að „heimskan myndi ekki hafa sigur“.

Háðtímaritið Charlie Hebdo er venjulega prentað í 60 þúsund eintökum en lögmaður blaðsins sagði að upplagið yrði margfalt stærra vegna þeirrar athygli sem árásin á ritstjórnarskrifstofur blaðsins hefur vakið út um allan heim.

Lögmaðurinn, Tony Malka, fundaði með 30 eftirlifandi starfsmönnum blaðsins í dag um framtíð blaðsins og útgáfuna í næstu viku. Allir voru sammála um að besta leiðin til að heiðra minningu þeirra sem létust og sýna að árásarmönnunum hefði ekki tekist að ráða niðurlögum blaðsins væri að gefa út næsta tölublað samkvæmt áætlun.

Pelloux viðurkenndi að verkefnið væri erfitt. „Við þjáumst öll, af sorg, ótta, en við munum samt gera þetta, af því að heimskan mun ekki hafa sigur.“

Dagblaðið Liberation mun hýsa ritstjórn Charlie Hebdo frá og með deginum í dag, þar sem ritstjórnarskrifstofur miðilsins hafa verið innsiglaðar. Aðrir fjölmiðlar, þeirra á meðal AFP, Le Monde og sjónvarpsstöðin Canal+, hafa einnig boðið fram aðstoð sína.

Þá hefur verið tilkynnt að franskur fjölmiðlasjóður, fjármagnaður með framlagi frá Google, muni veita Charlie Hebdo ótilgreindan fjárstyrk. Opinberar stofnanir í Frakklandi hafa keypt áksriftir til að styðja við blaðið.

Eintök af Charlie Hebdo hafa gengið kaupum og sölum á netinu í dag og hafa boð á ebay í ákveðin tölublöð numið þúsundum evra.

Ljósin á Eiffel-turninum í París verða slökkt í kvöld í minningu þeirra sem létust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert