Markmiðið árásarinnar að valda ótta

AFP

„Tilgangurinn með árásinni var að valda uppnámi innan alþjóðasamfélagsins,“ er haft eftir Lina Khatib, framkvæmdastjóra hugveitunnar Carnegie Middle East Centre, í frétt AFP um árásina sem gerð var á ritstjórnarskrifstofur franska blaðsins Charlie Hebdo í gær sem kostaði tólf manns lífið. Þar á meðal þrjá af teiknurum blaðsins og ritstjóra þess.

Fram kemur í fréttinni að árásin hafi staðfest þann ótta vestrænna stjórnvalda að vígamenn ættu eftir að fylgja eftir hótunum um hryðjuverk gegn skotmörkum á Vesturlöndum í nafni íslamisma. Árás á fjölmiðil, sem hefði valdið mikilli reiði meðal múslima með birtingu teiknimynda af Múhameð spámanni, væri ennfremur öflugt áróðursvopn til þess að afla fleiri liðsmanna að mati sérfræðinga. Khatib segir að framkvæmd árásarinnar beri það með sér að ætlunin hafi verið að undirstrika áhrif hreyfinga íslamista í Evrópu.

Öflugt áróðurstæki til að afla liðsmanna

Vestrænar leyniþjónustur hafa að undanförnu varað við þeirri hættu sem stafaði af Evrópubúum sem sneru heim eftir að hafa tekið þátt í átökum í Sýrlandi og Írak fyrir samtök eins og Ríki íslams. Talið er að þúsundir Evrópubúa hafi gengið til liðs við Ríki íslams samkvæmt frétt AFP. Þar á meðal nær eitt þúsund franskir ríkisborgarar. Þar af séu um 400 enn í Sýrlandi og Írak. Bæði Ríki íslams og önnur íslamista samtök hafi hvatt stuðningsmenn sína sérstaklega til árása í Frakklandi.

Ekki liggur fyrir hvort árásarmennirnir tengist með beinum hætti hreyfingum eins og hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams eða Al-Kaída. Engin slík hreyfing hefur enn sem komið er lýst yfir ábyrgð á skipulagningu árásarinnar. Max Abrahms, stjórnmálafræðiprófessor við Northeastern University, segir í samtali við AFP að árásin verði eftir sem áður til þess að fleiri gangi til liðs við slíkar hreyfingar. „Það er ekki spurning að Ríki íslams og önnur íslamistasamtök eiga eftir að hampa þessari árás sem miklum árangri og hvetja til þess að slíkt verði endurtekið.“

Meint hefnd fyrir spámanninn yfirvarp

Khatib telur að árásin á Charlie Hedbo hafi snúist um miklu meira en aðeins birtingar blaðsins á teikningum af Múhameð. Þannig séu Frakkar einn af helstu bandamönnum Bandaríkjamanna í loftárásunum á Ríki íslams í Írak. Frakkar hafa einnig farið fyrir hernaðaraðgerðum gegn íslamistum í Afríku. Fyrir vikið væri Frakkland eitt helsta skotmark þeirra. Markmiðið hafi verið að „senda þau skilaboð til ríkja, einkum þeirra sem tekið hafi þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn hópum eins og Ríki íslams, að þau væru viðkvæm fyrir árásum.“

Táknrænt er að mati hennar að árásarmennirnir hafi valið skotmark í miðborg Parísar. Yfirlýsingar þeirra um að þeir væru að hefna fyrir birtingar á teikningum af Múhameð væri aðeins yfirvarp. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert