Sjö eru í haldi lögreglu vegna árásarinnar í París að sögn forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls. Um er að ræða bæði karla og konur sem tengjast bræðrunum sem eru eftirlýstir, grunaðir um árásina.
UPPFÆRT ný skotárás í París
Tveir lögregluþjónar voru skotnir fyrir skömmu í Montrouge Hauts-de-Seine hverfinu í París. Atvikið átti sér stað við 101 Avenue Pierre Brossolette en lögreglan var kölluð á vettvang vegna umferðaróhapps rúmlega sjö í morgun að staðartíma, rúmlega átta að íslenskum tíma. Samkvæmt Le Parisien komu tveir menn aðvífanandi vopnaðir M5 hríðskotarifflum og skutu á lögreglumennina. Annar árásarmannanna flúði hlaupandi í átt að neðanjarðarlestarstöðinni Châtillon-Montrouge. Mjög óljóst er hvort lögreglu tókst að handtaka manninn, samkvæmt fyrstu fréttum. Hinn maðurinn flúði af vettvangi á bíl, samkvæmt vitnum hvítum Clio og að hann hafi verið í skotheldu vesti.
Annar lögregluþjóninn er í lífshættu og er á leið á gjörgæslu. Um er að ræða konu í umferðarlögreglunni en hún var skotin í bakið. Fimm sjúkrabílar eru á staðnum, samkvæmt Le Parisien.
Enn er ýmsilegt óljóst varðandi atburði dagsins - AFP fréttastofan talar um einn árásarmann sem hafi flúið af vettvangi en síðan náðst á flóttanum. Þar kemur fram að báðar lögreglunnar séu alvarlega særðar eftir skotárásina.
Bæði Le Parisien og AFP tala um að innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hafi rokið út af neyðarfundi ríkisstjórnarinnar og sé kominn á staðinn þar sem árásin var gerð fyrir skömmu, ekki langt frá Porte de Chatillon, í suðurhluta Parísar.
Fréttin verður uppfærð jafnóðum og nýjar upplýsingar berast.
Ekki upplýst um hvar sjömenningarnir voru handteknir
Valls segir að verið sé að yfirheyra fólkið en upplýsir ekki um hvar það var handtekið. Alls létust tólf í árásinni á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í gær og 11 særðust. Lögreglan hefur birt mynd af bræðrum sem eru grunaðir um hryðjuverkin, Chérif Kouachi, 32, sem var dæmdur fyrir brot á hryðjuverkalögum árið 2008 og Saïd, sem er 34 ára. Þeir eru báðir fæddir í París en ættaðir frá Alsír. Valls sagði í viðtali við RTL útvarpsstöðina fyrir skömmu að bræðurnir hafi verið undir eftirliti hjá leyniþjónustu landsins enda þekktir fyrir skoðanir sínar.
Þriðji árásarmaðurinn, átján ára piltur Hamyd Mourad, gaf sig fram við lögreglu í bænum Charleville-Mézières, spábæ skammt frá landamærum Belgíu.
BFM sjónvarpsstöðin hefur eftir ónafngreindum heimildum að Mourad hafi ákveðið að gefa sig fram við lögreglu eftir að hafa séð nafn sitt nefnt sem einn af árásarmönnum á samfélagsmiðlum. Vinir hans segi að hann geti ekki hafa tekið þátt í árásinni þar sem hann hafi verið í skólanum þegar hún var gerð um hádegisbilið í gær.
Níu starfsmenn tímaritsins meðal hinna látnu
Forseti Frakklands, François Hollande, hefur lýst yfir þjóðarsorg í Frakklandi. Flaggað verður í hálfa stöng í þrjá sólarhringa og á hádegi verður mínútu þögn alls staðar í landinu. Kirkjuklukkum verður hringt á Notre Dame kirkjunni á sama tíma.
Lögreglan hefur birt upplýsingar um þá tólf sem létust í árásinni. Níu þeirra eru blaðamenn á Charlie, þar á meðal ritstjóri tímaritsins og helsti teiknari blaðsins. Auk þeirra létust tveir lögreglumenn og einn starfsmaður í byggingunni þar sem tímaritið er til húsa.
Vitni segjast hafa heyrt árásarmennina kalla Allahu akbar, Guð er almáttugur og eins við höfum hefnt fyrir spámanninn. Eins hafa vitni sagt að mennirnir hafi sagt að þeir væru liðsmenn al-Qaeda.
Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaárásar er nú í gildi í Frakklandi og hafa 800 hermenn, til viðbótar við hermenn og lögreglu sem þegar voru til staðar á götum úti, verið sendir á vettvang á staði eins og trúarbyggingar, almenningssamgöngur, skrifstofur fjölmiðla og aðra staði sem óttast er að hryðjuverkamenn gætu látið til skarar skríða.
Ráðherrar í ríkisstjórn Frakklands sitja nú á neyðarfundi í forsetahöllinni í París þar sem farið er yfir öryggismál og fleira. Auk ráðherra sitja helstu ráðamenn landsins fundinn.
— banksy (@thereaIbanksy) January 8, 2015