Hýddur fyrir að móðga íslam

Raif Badawi
Raif Badawi Af vef Amnesty International

Bloggari í Sádí-Arabíu var í dag hýddur fimmtíu höggum fyrir utan mosku í borginni Jeddah. Hann var dæmdur til að sæta tíu ára fangelsi og 1.000 svipuhöggum fyrir að móðga íslam. Til stendur að hann verði hýddur vikulega þar til dómurinn hefur verið fullnustaður.

Raif Badawi er annar stofnanda vefsíðu sem nefndist Liberal Saudi Network en hún hefur síðan verið bönnuð í Sádí-Arabíu. Badawi var handtekinn árið 2012 en mannréttindasamtök hafa fordæmt dóminn yfir honum og bandaríska utanríkisráðuneytið hefur biðlað til þarlendra yfirvalda um að honum verði sýnd miskunn. Badawi var sýknaður af ákæru um að hafa afneitað trúnni árið 2013 en við því getur legið dauðadómur í Sádí-Arabíu.

Vitni segja að Badawi hafi verið færður að moskunni með lögreglubíl eftir föstudagsbænir í borginni Jeddah við Rauðahaf. Þar var hann hýddur eftir að honum hafði verið lesnar ákærurnar gegn sér.

Ströng íslömsk lög eru við lýði í Sádí-Arabíu og pólitískt andóf er ekki liðið af yfirvöldum. Engu að síður er notkun samfélagsmiðla afar útbreidd í landinu en stjórnvöld hafa brugðist við gagnrýni á þeim vettvangi með harðri hendi.

Frétt BBC af hýðingunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert