Umsátrið stendur enn yfir

Viðamikil aðgerð lögreglu er í gangi skammt frá Charles de Gaulle Roissy-flugvellinum við París en talið er að bræðurnir Chérif og Saïd Kouachi, sem eru eftirlýstir í tengslum við hryðjuverkin í París í fyrradag, haldi þar nokkrum starfsmönnum lítillar prentsmiðju í gíslingu. 

Sky segir frá. Í frétt þeirra kemur fram að mennirnir séu á gráum Peugeot sem þeir stálu í morgun. Lögreglan eltir þá og skotum hefur verið hleypt af.

Íbúum á svæðinu hefur verið sagt að halda sig innandyra.

Samkvæmt Le Figaro hefur innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, staðfest að lögregluaðgerð sé í gangi í Dammartin-en-Goële og herþyrlur sveimi yfir. Talið er að bræðurnir Chérif og Saïd Kouachi hafi tekið einn mann í gíslingu í Dammartin-en-Goële, sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð frá aðalflugvelli Parísar, Charles de Gaulle Roissy. 

Samkvæmt frétt Le Figaro stálu þeir gráum Peugeot í morgun eftir að hafa skilið aðra bifreið sem þeir höfðu stolið, Renault Clio, eftir, en sá bíll var orðinn bensínlaus.

Frönskum fjölmiðlum ber ekki saman um atburðarásina því samkvæmt Le Parisien eru tveir látnir og 20 særðir í skotbardaga í Dammartin-en-Goële (Seine-et-Marne). Hinir grunuðu eru taldir innikróaðir í fyrirtæki þar sem þeir halda nokkrum í gíslingu.

Le Figaro vísar nú í frétt Le Parisien um mannfall og segir að lögreglan sé byrjuð að ræða við mannræningjana. Jafnframt hefur nemendum í þremur grunnskólum á þessu svæði verið bannað að fara út úr kennslustofum sínum. Að minnsta kosti fimm þyrlur eru nú á sveimi yfir iðnaðarhverfinu þar sem bræðurnir halda fólki í gíslingu. Enn hefur ekki fengist staðfest hversu margir gíslarnir eru né heldur hversu mikið mannfallið er.

Fréttin verður uppfærð.

Uppfært kl. 9.36

Le Figaro hefur eftir blaðamanni á vettvangi að svo virðist sem gíslunum hafi tekist að flýja frá bræðrunum. Einnig að talið sé líklegt að stutt sé eftir af umsátrinu, hvernig svo sem því lýkur. 

Uppfært kl. 9.53

Staðan virðist óbreytt í Dammartin-en-Goële fyrir utan það að þúsundir lögreglumanna og sérsveitarmanna hafa svo gott sem tekið yfir bæinn og er hann algjörlega lokaður af. Fjölmiðlafólk hefur verið beðið um að taka ekki myndir og myndskeið af lögreglumönnum eða aðgerðunum. Þá hefur einni flugbraut verið lokað á Charles de Gaulle Roissy og má búast við seinkunum á flugferðum til og frá flugvellinum.

Uppfært kl. 10.17

Franskir fjölmiðlar greina frá því að Kouachi bræðurnir hafi lýst því yfir að þeir ætli sér að deyja sem píslarvottar. Viðbúnaður hefur verið aukinn á sjúkrahúsum í grennd við Dammartin-en-Goële. Bræðurnir eru enn umkringdir þar sem þeir hafast við í húsnæði lítillar prentsmiðju. Enn er óljóst hvort fimm starfsmönnum fyrirtækisins sé haldið í gíslingu.

Uppfært kl. 10.22

Lokað hefur verið fyrir öll farsímakerfi í Dammartin-en-Goële og segjast íbúar aðeins geta fylgst með aðgerðum lögreglunnar í gegnum vefmiðla.

Uppfært kl. 10.42

Útvarpsstöðin France Info tók viðtal við mann sem hitti og tók í hönd Kouachi bræðranna í morgun. Maðurinn, Didier, átti erindi í prentsmiðjuna litlu og var þar þegar bræðurnir mættu þangað. Sagðist hann hafa haldið að um sérsveitarmenn væri að ræða en þeir voru svartklæddir og þungvopnaðir. Bræðurnir sögðu Didier að yfirgefa svæðið og að þeir dræpu ekki almenna borgara. Það þótti honum undarlegt af lögreglumanni að segja en tengdi ekki við bræðurna fyrr en hann heyrði fréttir af umsátrinu.

Uppfært kl. 10.45

Blaðamaður Guardian á svæðinu segir að sjúkrabílar með forgangsljós hafi ekið í gegnum bæinn. Fjölmiðlafólki er hins vegar haldið svo langt frá vettvangi að engin leið sé að greina hvers vegna það sé.

Uppfært kl. 10.50

Fleiri greina frá samskiptum sínum við Kouachi bræðurna. Í samtali við Europe 1 lýsti karlmaður því þegar þeir rændu hann bíl í París. Maðurinn sat ásamt hundi sínum í bílnum þegar bræðurnir komu upp að honum með riffla sína og sögðust þurfa á bílnum að halda. Maðurinn segir þá aldrei hafa hækkað róminn og ekki hafi verið að sjá að þeir væru taugaóstyrkir. Þeir sögðu við manninn að hann skyldi segja fjölmiðlum að al-Kaída í Jemen hafi verið að verki.

Uppfært kl. 11.13

Þrautreyndir stjórnendur aðgerða í Dammartin-en-Goële leggja áherslu á að ná Kouachi bræðrunum á lífi. Engar samningaviðræður hafa farið fram, samkvæmt heimildum Le Figaro, en óttast er að bræðurnir séu þungvopnaðir og muni ekki gefast auðveldlega upp.

Uppfært kl. 11.34

Á myndum frá vettvangi má sjá fjölda sérsveitarmanna ganga um iðnaðarhverfið, þar sem Kouachi bræðurnir halda sig. Sérsveitarmennirnir ganga hægum og öruggum skrefum en ekki er vitað hvort þeir séu að undirbúa áhlaup á prentsmiðjuna þar sem bræðurnir eru taldir halda að minnsta einum starfsmanna í gíslingu.

Uppfært kl. 11.47

Fjölmiðlamenn á vettvangi í Dammartin-en-Goële eru á leið inn í bæinn í lögreglufylgd frá athafnasvæðinu þar sem boðað hefur verið til blaðamannafundar. Þar munu lögregluyfirvöld fara yfir stöðu mála.

Uppfært kl. 12.02

Náðst hefur samband við Kouachi bræðurna og fékkst samþykkt að nemendur í nærliggjandi skóla fengju að yfirgefa bygginguna. Verið er að flytja þá á brott og til fundar við foreldra sína í íþróttahúsi í bænum. Nokkuð rólegt er yfir þessa stundina, á meðan lögregla tryggir stórt svæði í kringum litlu prentsmiðjuna.

Uppfært kl. 12.18

Talsmaður franska innanríkisráðuneytisins segir það rangt sem fram hafi komið í fréttum í morgun um að einhverjir hafi látist í skotbardaga. Rétt sé að enginn hafi látist í tengslum við eftirför lögreglunnar og umsátrið í Dammartin-en-Goële.

Uppfært kl. 12.35

Talsmaður franska innanríkisráðuneytisins segir að næsta skref aðgerða í Dammartin-en-Goële sé að hefja samningaviðræður við Kouachi bræðurna. „Þetta gæti tekið langan tíma, klukkustundir og jafnvel einhverja daga,“ segir talsmaðurinn Pierre-Henry Brandet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert