Í gærmorgun stóð yfir viðamikil leit lögreglunnar í Frakklandi að bræðrunum sem grunaðir voru um fjöldamorðið á ritstjórnarskrifstofum Charlie Habdo í París. Áður en dagurinn var úti voru bræðurnir látnir, sem og þriðji hryðjuverkamaðurinn, sem í gær tók gísla í matvöruverslun í höfuðborginni.
Um klukkan átta um morguninn skiptist lögregla á skotum við farþega í bíl sem ekið var á N2-hraðbrautinni norðaustur af París. Víst var talið að í bifreiðinni væru bræðurnir tveir, sem höfðu skömmu áður stolið Peugeot 206 af konu í Montagny-Sainte-Felicite. Konan bar kennsl á bræðurna.
Nokkrum mínútum seinna tóku bræðurnir, Cherif og Said Kouachi, mann í gíslingu í lítilli prentsmiðju að nafni CTD í Dammartin-en-Goele, 8.000 manna bæ, 42 kílómetrum norðaustur af París og aðeins 12 kílómetrum frá Charles de Gaulle-flugvellinum. Bærinn var í kjölfarið tekinn yfir af lögreglu.
Vísa þurfti einhverju flugi frá flugvellinum, þar sem herþyrlur og þyrlur lögreglu sveimuðu yfir svæðinu. Innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve sagði að lögregluaðgerð stæði yfir sem miðaði að því að yfirbuga bræðurna og að tilraunir hefðu verið gerðar til að hafa samband við þá.
Skólum og fyrirtækjum nærri prentsmiðjunni var lokað og fólki sagt að halda sig inni við.
Klukkan 13 að staðartíma réðst maður inn í matvöruverslun fyrir gyðinga (kosher) í Porte de Vincennes í austurhluta Parísar og tók að minnsta kosti fimm í gíslingu. Grunur lék strax á um að um væri að ræða sama mann og hefði skotið lögreglukonu í Montrouge í suðurhluta Parísar á fimmtudag. Þá var talið að hann hefði hugsanlega tengsl við Koucahi-bræður.
Snemma síðdegis birti lögregla myndir af manni og konu, Amedy Coulibaly, 32 ára, og Hayat Bourmeddiene, 26 ára, sem voru eftirlýst fyrir morðið á lögreglukonunni.
Um klukkan 17 ræðst lögregla að byggingunni þar sem bræðurnir halda til. Sprengingar heyrast og reyk sést leggja frá iðnaðarsvæðinu þar sem prentsmiðjan er til húsa. Bræðurnir koma sjálfir út úr byggingunni, skjótandi á lögreglu og hermenn, og eru drepnir. Gíslinn, sem yfirvöld hafa upplýst að hafi falið sig undir vaski á annarri hæð og sent lögreglu upplýsingar í smáskilaboðum, sleppur ómeiddur.
Um klukkan 17.15 ræðst lögregla inn í matvöruverslunina í Porte de Vincennes. Fimm finnast látnir, þeirra á meðal árásarmaðurinn, og fjórir alvarlega særðir. Yfirvöld upplýsa síðar að allt að fimm gíslar, þeirra á meðal faðir og þriggja ára sonur hans, hafi lifað með því að fela sig inni í kæliskáp, en lögregla gat staðsett þá með því að miða út farsíma þeirra.
Fyrr um daginn hafði Coulibaly átt samtal við BFMTV-stöðina gegnum síma þar sem hann sagðist hafa skipulagt sig í samstarfi við bræðurna og að hann væri liðsmaður Ríkis íslams. Cherif Kouachi ræddi sömuleiðis við BFMTV og sagði að aðgerðir þeirra bræðranna hefðu verið fjármagnaðar af al-Kaída í Jemen.