Hamas fordæma hryðjuverkin í París

Mahmoud Abbas forseti Palestínu.
Mahmoud Abbas forseti Palestínu. AFP

Palestínsku Hamas-samtökin fordæma hryðjuverkin í París þar sem 12 manns voru drepnir í árás á ritstjórn vikublaðsins Charlie Hebdo. Í yfirlýsingu sem samtökin sendu í dag frá sér á frönsku segjast þau fordæma árásina og „ítreka þá staðreynd að ágreiningur skoðana geti ekki réttlætt morð“.

Samtökin höfnuðu einnig ummælum forsætisráðherra Ísraels, Benjamíns Netanyahus, þar sem hann líkti árásinni í París við eldflaugaskot Hamas-samtakanna á almenna borgara í Ísrael. 

„Hamas fordæmir örvæntingarfullar tilraunir Netanyahus til að tengja hreyfingu okkar og mótstöðu Palestínumanna við hnattræn hryðjuverk.“

Forseti Palestínu, Mahmud Abbas, hringdi einnig í Francois Hollande Frakklandsforseta til að votta samúð sína. Utanríkisráðherra Palestínu, Riyad al-Maliki, segir í samtali við AFP að Abbas hafi fullvissað forsetann um að Palestínumenn stæðu einhuga með frönsku þjóðinni í kjölfar árásarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert