Fordæma nærveru „afræningja“

Frá göngunni í París.
Frá göngunni í París. AFP

Blaðamenn án landamæra fagna því að margir þjóðarleiðtogar hafi ákveðið að taka þátt í göngunni sem nú stendur yfir í París en fordæma nærveru fulltrúa frá löndum sem hafa reist upplýsingafrelsinu skorður.

„Á hvaða forsendum eru fulltrúar stjórnvalda sem sækja á fjölmiðlafrelsi að ferðast til París til að votta Charlie Hebdo virðingu sína; útgáfu sem hefur alltaf staðið vörð um róttækustu hugmyndir um tjáningarfrelsið?

Blaðamönnum án landamæra býður við nærveru leiðtoga frá löndum þar sem blaðamenn og bloggarar eru kerfisbundið ofsóttir, til að mynda Egyptalandi (sem er í 159. sæti á lista RWB yfir fjölmiðlafrelsi), Rússlandi (148. sæti), Tyrklandi (154. sæti) og Sameinuðu arabísku furstadæmunum (118. sæti),“ segir í yfirlýsingu á heimasíðu RWB.

„Við verðum að sýna samstöðu með Charlie Hebdo án þess að gleyma öðrum Charlie heimsins,“ segir framkvæmdastjóri samtakanna, Christophe Deloire.

„Það væri óásættanlegt ef fulltrúar ríkja sem þagga niður í blaðamönnum nýttu sér þetta tilfinningaþrungna tilefni til að bæta alþjóðlega ímynd sína og viðhalda síðan kúgandi stefnumótun sinni þegar þeir snúa heim. Við megum ekki leyfa afræningjum fjölmiðlafrelsis að hrækja á grafir Charlie Hebdo.“

Meðal viðstaddra í París eru Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Ramtane Lamamra, utanríkisráðherra Alsírs, Sheikh Abdullah bin Zayed Al Nahyan, utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, og Ali Bongo, forseti Gambíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert