Obama gagnrýndur fyrir að mæta ekki

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa verið harðlega gagnrýnd á samskiptamiðlum vegna þess að enginn háttsettur ráðamaður landsins mætti á samstöðufundinn í París höfuðborg Frakklands sem fram fór í dag þar sem hundruð þúsunda komu saman til þess að sýna samstöðu gegn hryðjuverkum og votta fórnarlömbum árásanna í borginni í síðustu viku samúð sína. Þar á meðal voru tugir þjóðarleiðtoga.

Fram kemur á fréttavefnum The Hill að gagnrýnt sé að hvorki Barack Obama Bandaríkjaforseti, Joe Biden varaforseti né John Kerry utanríkisráðherra hafi mætt á samstöðufundinn. Eric Holder dómsmálaráðherra var í París til þess að ræða um varnir gegn hryðjuverkum og stóð til að hann mætti fyrir hönd bandarískra stjórnvalda á fundinn en af því varð ekki og hljóp Jane Hartley, sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi, í skarðið.

Bandarísk stjórnvöld hafa brugðist við gagnrýninni með því að benda á að þau hefðu sýnt Frökkum mikla samstöðu vegna árásanna og verið þeim innan handar í kjölfar þeirra. Obama hefði meðal annars hringt í Francois Hollande Frakklandsforseta og komið við í franska sendiráðinu í Washington og vottað samúð sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert