Yfirvöld í Taívan fyrirskipuðu í dag slátrun sextán þúsund gæsa og anda til að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu fuglaflensu. Kemur þetta í kjölfar slátrunar 120 þúsund kjúklinga síðastliðinn föstudag eftir að sýnatökur sýndu fram á að H5N2-stofn fuglaflensunnar fyrirfyndist.
Í dag var svo úrskurðað um slátrun 7.500 anda og 8.500 gæsa í suðurhéruðum Taívan, eftir að nýtt afbrigði H5N2-stofnsins uppgötvaðist auk þess sem merki fundust einnig um H5N8-stofninn. „H5N8-stofninn hefur aldrei áður sést í Taívan, en líklega hefur hann borist til landsins með farfuglum,“ sagði Chang Su-san, yfirmaður dýraeftirlits Taívan, á blaðamannafundi í dag.
H5N8 hefur áður fundist í Evrópu, Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Japan, og hefur þá einnig leitt til slátrunar á fiðurfé.
Taívan hefur tilkynnt ýmis tilfelli sýkingar af völdum H5N2 á síðustu árum. Hins vegar hafa aldrei borist fregnir af því að hinn banvæni H5N1-stofn hafi tekið sér bólfestu þar, þrátt fyrir að yfirvöld hafi fundið veiruna í gælufuglum sem smyglað var frá Kína árin 2005 og 2012, en þeim fuglum var fargað um leið.