Unglingurinn sem var grunaður um morðin

Tólf manns féllu er ráðist var á skrifstofur Charlie Hebdo …
Tólf manns féllu er ráðist var á skrifstofur Charlie Hebdo á miðvikudag. AFP

Hann er átján ára og býr hjá foreldrum sínum. Nafn hans var að finna í fjölmiðlum víða um heim í vikunni þegar talið var að hann hefði ráðist inn á skrifstofur Charlie Hebdo í París í Frakklandi og myrt tólf manns í félagi við Kouachi-bræðurna.

Hann gaf sig fram við lögreglu eftir að honum var ljóst að hann var grunaður en honum var sleppt án ákæru á föstudagskvöld.

Hamyd Mourad tengist bræðrunum vissulega, en hann er mágur annars þeirra. Hann ræddi við blaðamann AFP-fréttaveitunnar í gær og var hann greinilega afar þreyttur og miður sín vegna málsins.

Gátu staðfest að hann var í skólanum

Fjöldi vitna gat staðfest að Mourad var í skólanum þegar bræðurnir réðust inn á skrifstofur Charlie Hebdo.

„Ég er í áfalli. Fólk sagði hræðilega og ranga hluti um mig á samfélagsmiðlum jafnvel þó að ég sé aðeins venjulegur nemandi sem lifir rólegu lífi hjá foreldrum sínum, sagði unglingurinn. „Árásin var hræðileg og hugur minn er hjá fórnarlömbunum.“

Enn er ekki ljóst af hverju Mourad dróst inn í málið með þessum hætti. Lögregla hefur hingað til ekki þurft að hafa afskipti af honum.

Óttast að málið muni elta hann

Hann óttast að þessar röngu ásakanir muni elta hann næstu árin. „Ég vona að þetta muni eki hafa áhrif á framtíð mína,“ segir hann. „Ég hef ekkert að gera með þetta, Cherif er bara mágur minn.“

Systir Mourads, eiginkona Cherifs Kouachis, var úrskurðuð í gæsluvarðhald á miðvikudag og látin laus í gær. „Ég er viss um að hún er líka saklaus,“ sagði ónefndur ættingi í samtali við AFP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert