Álitsgjafi sem titlar sig sérfræðing í hryðjuverkamálum sagði að borgin Birmingham á Englandi væri orðin „algerlega múslímsk“ í viðtali á bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News um helgina. Af þessum sökum færu aðrir en múslímar ekki til borgarinnar. Þá sagði hann að hópar manna framfylgdu sjaríalögum í London með ofbeldi.
Steven Emerson, sem er reglulegur viðmælandi Fox News, kom fram á sjónvarpsstöðinni til að ræða um hryðjuverkaárásirnar í París. Þar sagði hann meðal annars að íbúar í Birmingham, næststærstu borg Bretlands, væru alfarið múslímar og aðrir hættu sér ekki þangað inn.
„Og í sumum hlutum London er í alvörunni múslímsk trúarlögregla sem lemur í alvörunni og særir alvarlega hvern þann sem klæðir sig ekki í samræmi við klæðaburð trúrækinna múslíma,“ sagði Emerson.
Þáttastjórnandinn, Jeanine Pirro, vissi augljóslega ekki betur en Emerson því hún greip fullyrðingar hans á lofti.
„Veistu hvernig þetta hljómar fyrir mér, Steve? Þetta hljómar eins og kalífat innan ákveðins lands,“ sagði Pirro.
Fullyrðingar Emerson drógu hins vegar dilk á eftir sér þar sem fjölmargir urðu til þess að gagnrýna og hæðast að honum og Fox News fyrir rangfærslurnar. Eins og kemur fram í frétt á vef breska blaðsins The Guardian býr um 1,1 milljón manna í Birmingham. Um 850.000 þeirra eru ekki múslímar, eða um 80% íbúanna.
Emerson neyddist í kjölfarið til að draga fullyrðingar sínar til baka og sagðist hann hafa á algerlega röngu að standa. Baðst hann jafnframt innilega afsökunar á mistökunum. Sagðist hann meðal annars ætla að gefa fé til barnaspítalans í Birmingham í framhaldinu.