Dæmdir fyrir að sýna samkennd

Frá útför lögreglumannsins Ahmed Merabet í Bobigny, í úthverfi Parísar …
Frá útför lögreglumannsins Ahmed Merabet í Bobigny, í úthverfi Parísar í dag. Merabet var drepinn af öfgamönnum við ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo á miðvikudag. AFP

Franskir dómarar eru byrjaðir að dæma fólk í fangelsi sem lýsir sig opinberlega sem stuðningsmenn hryðjuverkaárásanna í París. Meðal hinna handteknu er fimmtán ára gömul stúlka sem segir Kouachis-bræðurna vera bræður sína, samkvæmt frétt The Local. 

Á stúlkan að hafa truflað minningarstund um fólkið sem lést í skóla sínum og æpt að hún sé stolt af þeim og að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt. 

Í borginni Valenciennes var maður dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa sagt við lögreglu að það þyrfti fleiri Kouachis. „Ég vona að þið verðið næstu fórnarlömbin.“

Í Toulouse voru þrír menn á aldrinum 20-25 ára dæmdir í tíu mánaða fangelsi eftir að þeir fögnuðu morðum á sautján manns í síðustu viku.

„Kouachi bræðurnir eru bara þeir fyrstu. Ég hefði átt að vera með þeim svo við hefðum getað drepið fleiri,“ sagði einn þeirra. 

Handtökur og dómar byggja á frönsku hryðjuverkalögunum, Loi de Programmation Militaire, sem voru samþykkt á þingi í nóvember í fyrra. Samkvæmt þeim er lögreglu heimilt að handtaka meinta hryðjuverkamenn og þá sem sýna samkennd opinberlega með þeim sem fremja slík voðaverk. Hið sama gildir um þá sem reyna að safna nýliðum hjá öfgahópum á netinu. Slík mál fá forgang í réttarkerfinu.

Einn þeirra sem eru til rannsóknar er uppistandarinn Dieudonné M'Bala M'Bala sem hingað til hefur ekki farið dult með gyðingahatur sitt. Hann á að hafa hvatt til hryðjuverka á Facebook síðu sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert