Stríð gegn hryðjuverkum - ekki múslimum

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, ávarpaði franska þingið í dag.
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, ávarpaði franska þingið í dag. AFP

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, segir að Frakkar eigi í stríði gegn öfgastefnu og hryðjuverkahópum. Frakkar eigi hins vegar ekki í stríði við múslima.

Valls ávarpaði franska þingið í dag. Hann sagði að íslamskir byssumenn sem hefðu myrt 17 í París í síðustu viku hefðu viljað drepa „anda Frakklands“, en að þeim hefði mistekist. Þetta er í fyrsta sinn sem franska þingið kemur saman frá því árásirnar voru gerðar. Við upphaf þingfundarins var haldin einnar mínútu þögn til að minnast þeirra sem létust og í framhaldinu var sunginn franski þjóðsöngurinn.

Sjö hinna látnu voru bornir til grafar í dag. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Skopblaðið Charlie Hebdo mun koma út á morgun, viku eftir voðaverkin. Blaðið verður prentað í þremur milljónum eintaka, í stað 60.000 eins og vanalega. Mynd af Múhameð spámanni verður á forsíðunni. Hann heldur tárvotur á skilti sem á stendur: „Ég er Charlie Hebdo“. Yfirskriftin er: „Allt er fyrirgefið.“.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem blaðið birtir myndir af spámanninum, en talið er tildrög árásarinnar megi rekja til fyrri myndbirtinga. Alls létust 12 á skrifstofum blaðsins þegar byssumennirnir gerðu árás, m.a. ritstjóri blaðsins og fjórir skopmyndateiknarar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert