Jeannette Bougrab, eftirlifandi kærasta ritstjóra Charlie Hebdo, fær ekki leyfi hjá fjölskyldu hans til að vera viðstödd útför hans. Ritstjórinn, Stéphane Charbonnier, lést í árás hryðjuverkamanna á skrifstofu blaðsins í síðustu viku. The Independent segir frá þessu.
Síðan Charbonnier lést hefur Bougrab veitt mörg sjónvarpsviðtöl þar sem hún lýsir kærasta sínum.
„Lífsförunautur minn er dáinn því hann teiknaði í dagblað,“ sagði hún meðal annars.
„Hann eignaðist aldrei börn því hann vissi að hann myndi deyja. Hann lifði án ótta en hann vissi að hann myndi deyja.“
Nú hefur hún þó tilkynnt að hún verði ekki viðstödd jarðarför Charbonniers, eftir að fjölskylda hans hafnaði því að þau Bougrab væru í alvarlegu ástarsambandi. Jafnframt sagði fjölskyldan henni að halda sig fjarri.
Laurent Charbonnier, bróðir Charbonniers, gaf út tilkynningu þar sem kom fram að fjölskyldan neitaði sambandinu og óskaði eftir því að Bougrab hætti að tjá sig eins og hún hefði gert.
Bougrab svaraði með því að hún myndi ekki setja sig upp á móti óskum fjölskyldunnar og yrði ekki við jarðarförina. „Ég hef ekki styrkinn til að berjast. Ég er marin og sigruð,“ sagði hún. Bætti hún við að með þessu hefði fjölskyldan neitað henni um að kveðja elskhuga sinn. „Með þessu hafa þau drepið hann í annað sinn.“
Hún hefur jafnframt sagt að sambandið hafi verið alvarlegt. Á Charbonnier að hafa hitt móður hennar og á dóttir Bougrab að hafa kallað hann „pabba“.
Nokkrir vinir parsins hafa nú staðfest fullyrðingar hennar.
Foreldrar Bougrab eru innflytjendur frá Alsír. Hún var eitt sinn ráðherra í ríkisstjórn Nicholas Sarkozys. Þau Charbonnier höfðu mjög ólíkar stjórnmálaskoðanir; Bougrab er hægrisinnuð en hann var vinstrisinnaður.