Múhameð „er Charlie Hebdo“

AFP

Franska skopblaðið Charlie Hebdo mun koma út á miðvikudag, en á forsíðunni verður teikning af Múhameð spámanni grátandi með skilti sem á stendur „Ég er Charlie Hebdo“. Yfirskriftin er „Allt er fyrirgefið“.

Upplag blaðsins verður þrjár milljónir eintaka, en það er alla jafna gefið út í 60.000 eintökum á hverjum miðvikudegi.

Á miðvikudag verður vika liðin frá árás vopnaðra manna á skrifstofur Charlie Hebdo, en þar voru 12 skotnir til bana. Byssumennirnir sögðust hafa verið að refsa þeim fyrir að hafa birt skopmyndir af Múhameð, sem margir múslimar telja helgispjöll.

Charlie Hebdo hefur orðið að tákni tjáningarfrelsis á heimsvísu í kjölfar árásarinnar og annarrar árásar sem var gerð á matvöruverslun gyðinga tveimur dögum síðar. Alls létust 17 í árásunum. 

Hátt í fjórar milljónir söfnuðust saman á götum úti víða um heim til að sýna Frökkum samstöðu og fordæma ódæðisverkin. Alls kom ein og hálf milljón saman í París, höfuðborg Frakklands, en það er stærsti fjöldafundur í sögu landsins. 

Myndin sem mun prýða næsta tölublað Charlie Hebdo.
Myndin sem mun prýða næsta tölublað Charlie Hebdo. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert