Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, sagðist í dag „frekar hrifinn“ af nýjustu forsíðu ádeilublaðsins Charlie Hebdo en þar er skopmynd af Múhameð spámanni. Abbott segir að forsíðan sé í „anda fyrirgefningarinnar“.
Á forsíðu Charlie Hebdo sem kom út í dag er mynd af Múhameð með tár á hvarmi. Fyrir ofan myndina segir „allt er fyrirgefið“ og heldur hann á skilti sem á stendur: „Ég er Charlie Hebdo“. Ekki eru fleiri myndir af spámanninum í blaðinu en þar má finna nokkrar skopmyndir af hryðjuverkamönnum.
Blað dagsins var prentað í þremur milljónum eintaka en venjulegt upplag er í kringum 60 þúsund eintök.
Miklar biðraðir mynduðust í morgun við blaðsöluturna í París og víðar er fólk hugðist verða sér úti um blaðið. Seldust fyrstu birgðir upp á örkotsstundu hjá sumum. Talað er um „áhlaup“ á söluturnana en í Frakklandi eru blaðsölustaðir yfirleitt ekki opnaðir seinna en klukkan sjö á morgnana.
„Þetta er ótrúlegt, hér biðu 60-70 manns þegar ég opnaði klukkan 5.45. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Öll eintökin sem ég var með, 450 talsins, seldust upp á fimmtán mínútum,“ segir kona sem starfar í sjoppu á Gambetta-lestarstöðinni í París.
Abbott sagði í morgun að ekki allt sem Charlie Hebdo birti væri að hans smekk en að hann væri „frekar hrifinn“ af forsíðu dagsins.
„Ég er ekki viss um að allt sem Charlie Hebdo birtir sé að mínu skapi en á þessari teiknimynd er spámaðurinn með tár á hvarmi og segir að allt sé fyrirgefið. Andi fyrirgefningar er það sem við þurfum sífellt meira á að halda í heiminum.“
Blað Charlie Hebdo verður í dag gefið út á 16 tungumálum og dreift víða um heim. Sá sem teiknaði forsíðuna, Renald „Luz“ Luzier, segist hafa grátið á meðan hann vann að teikningunni.