Þrjú stór orkufyrirtæki hafa gefið olíuleit við Grænland upp á bátinn. Hið Norska Statoil, franska GDF Suez og danska DONG Energy hafa skilað inn leyfum sínum til leitar vestan við Grænland og viðurkennd að það sé hreinlega of óörugg fjárfesting að sækjast eftir stóra olíuvinningnum á þessu svæði. Þessu greinir Berlinske frá.
Nokkur önnur fyrirtæki, þar á meðal Shell, Mærsk og Cairn Energy, hafa fengið tveggja ára frest á meðan stjórnendur þeirra taka ákvörðun um hvort þau vilji halda áfram olíuleit á svæðinu.
Cairn Energy hefur þegar notað um sjö milljarða danskra króna í boranir á svæðinu sem ekki skiluðu neinum niðurstöðum. Fyrirtækið hefur lokað skrifstofum sínum í Nuuk og virðist ekki hafa áætlanir um að opna þær á ný.
Brotthvarf olíuleitarfyrirtækjanna hefur miklar afleiðingar á efnahag Grænlands sem þegar er þröngur stakkur sniðinn. Samkvæmt Berlinske hefur lækkandi olíuverð einhver áhrif á ákvörðun fyrirtækjanna. Fyrirtækin þurfa að horfa 20 til 30 ár fram í tímann og hætta er á því að tap verði á dýrum leitaraðgerðum ef olían tapar slagnum við aðra orkugjafa.