„Allt er fyrirgefið“ stendur við mynd af Múhameð spámanni á forsíðu nýjasta tölublaðs Charlie Hebdo. En hvað eru teiknararnir að meina?
Teiknarar sem lifðu af árásina á ritstjórnarskrifstofurnar í París standa að nýjasta tölublaðinu sem kom í sölu í morgun. Þegar er blaðið uppselt víða.
„Teiknarar teikna því þeir eru ekki góðir í því að tjá sig með orðum,“ sagði Luz, sá sem teiknaði forsíðuna og grét á meðan hann vann verkið. „Við teiknum til að útskýra heiminn, rétt eins og þegar við vorum börn. Lengi vel héldum við að með því gætum við verndað okkur sjálf fyrir heimsku fólks.“