Prédikari kýldi strák í brjóstkassann af alefli

Prédikari hefur sætt gagnrýni eftir að hann birti myndband af prédikun sinni, þar sem hann segist hafa kýlt dreng af alefli í brjóstkassann til að kynna hann fyrir almættinu. 

„Strákurinn heitir Ben og var algjör töffari,“ segir prédikarinn Eric Dammann við biblíubaptistakirkjuna (e. Bible Baptist Church) í Hasbrouck Heights í New Jersey í Bandaríkjunum. „Hann var góður strákur en algjör töffari. Hann var líka klár strákur, sem hjálpaði ekki til, heldur gerði hann hættulegri,“ heldur Dammann áfram. 

„Hann gerði allt hvað hann gat til að pirra mig og tók drottinn ekki alvarlega. Ég gekk því að honum og BAMM! Ég kýldi hann í brjóstkassann eins fast og ég gat. Hann lyppaðist niður. Og ég sagði: „Ben, hvenær ætlarðu að hætta að fíflast í almættinu?“ Þarna leiddi ég hann til drottins. Stundum er þörf á þessu,“ segir Dammann.

Dammann baðst síðar afsökunar á atvikinu. „Ég fordæmi ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist. Ég valdi lélegt dæmi úr fortíð minni og komst illa að orði,“ segir Dammann. „Það sem ég gerði var ekki í ætt við Kristni eða boðskap Biblíunnar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert