Vekur umræðu um tjáningarfrelsi

Langar biðraðir mynduðust við blaðsölustaði í Frakklandi í gær þegar sala hófst á nýju tölublaði háðsritsins Charlie Hebdo. Forsíða blaðsins vakti umræðu um tjáningarfrelsið vegna nýrrar teikningar af Múhameð spámanni.

Háðsritið er yfirleitt gefið út í 30.000-60.000 eintaka en í fyrstu var ákveðið að stækka upplagið í þrjár milljónir til minningar um þá sem biðu bana í árás hryðjuverkamanna úr röðum íslamista í vikunni sem leið. Blaðið seldist upp á nokkrum klukkustundum í gærmorgun og ákveðið var því að prenta það í alls fimm milljónum eintaka. Tölublaðið verður einnig gefið út á ensku, spænsku, ítölsku, arabísku og tyrknesku.

Margir Frakkar keyptu blaðið til að láta í ljósi stuðning við tjáningarfrelsið, en einnig vegna þess að ágóðinn rennur til fjölskyldna þeirra sem létu lífið.

Talið er að árásin á skrifstofu Charlie Hebdo hafi verið gerð vegna teikninga sem blaðið hafði birt af Múhameð spámanni. Á forsíðu nýjasta tölublaðsins er teikning af Múhameð sem grætur og heldur á spjaldi með áletruninni „Ég er Charlie“. Yfirskrift teikningarinnar er „Allt er fyrirgefið“.

Ekki eru fleiri teikningar af spámanninum í nýja tölublaðinu en inni í því eru skopmyndir af nokkrum íslömskum öfgamönnum.

„Guðlasti“ mótmælt

Flestir múslímar líta á birtingu mynda af Múhameð spámanni sem guðlast. Alþjóðleg samtök íslamskra fræðimanna gagnrýndu birtingu teikningarinnar á forsíðu háðsritsins í gær og sögðu hana líklega til að „vekja hatur“. „Það er hvorki skynsamlegt, né rökrétt eða viturlegt að birta teikningar og myndir sem eru móðgun eða árás á spámann íslams,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum sem eru með höfuðstöðvar í Katar.

Stórmúftinn í Jerúsalem, Mohammed Hussein, sagði að forsíðuteikning háðsritsins væri óvirðing sem „særði tilfinningar tveggja milljarða múslíma úti um allan heim“.

Mörg dagblöð í Mið-Austurlöndum gagnrýndu einnig birtingu skopmyndarinnar.

Þolinmæði og umburðarlyndi besta svarið

Margir trúarleiðtogar múslíma tóku þó blendna afstöðu til forsíðu blaðsins og reyndu að draga úr spennunni. Forystumenn samtaka franskra múslíma hvöttu þá til að „halda stillingu sinni og forðast tilfinningaþrungin viðbrögð“.

Leiðtogar samtaka breskra múslíma tóku í sama streng. Þeir sögðu það skiljanlegt að margir múslímar væru sárir og reiðir vegna skopmynda af spámanninum en þolinmæði og umburðarlyndi væri besta svarið. „Viðbrögð okkar verða að endurspegla hið milda og miskunnsama eðli spámannsins,“ sögðu þeir. „Langlundargeð, umburðarlyndi, mildi og miskunn, í samræmi við eðli okkar ástkæra spámanns, er besta og beinasta leiðin til að svara þessu.“

Öfgamenn úr röðum múslíma mótmæltu þó nýja tölublaðinu harðlega. Einn þeirra, Anjem Choudary, fyrrverandi leiðtogi öfgahreyfingar sem var bönnuð í Bretlandi, sagði að nýja Múhameðsteikningin væri „stríðsaðgerð“ sem varðaði dauðarefsingu samkvæmt íslömskum lögum.

Stuðningsmenn Charlie Hebdo sögðu að forsíðuteikning ritsins ætti vel við til að minnast þeirra sem biðu bana í árás hryðjuverkamannanna og til að árétta stuðninginn við tjáningarfrelsið. „Ég hef engar áhyggjur af forsíðunni,“ sagði Renald Luzier, sem teiknaði forsíðumyndina. „Við treystum á greind og kímnigáfu fólksins. Þeir sem gerðu þessa árás hafa enga kímnigáfu.“

Franski forsætisráðherrann Manuel Valls sagði í ræðu á þinginu í París í fyrradag að guðlast væri ekki og yrði aldrei bannað með lögum í Frakklandi.

Í landinu eru tæpar fimm milljónir múslíma og þeir eru um 7,5% allra íbúanna. Mörgum þeirra er illa við slagorðin „Ég er Charlie“, sem hafa verið mjög áberandi í Frakklandi og víðar í heiminum eftir hryðjuverkin. Flestum frönskum múslímum býður við ódæðisverkunum en marga þeirra hryllir þó við því að þurfa verja háðsritið vegna skopmyndanna af spámanninum.

Vefsíðum lokað

Tyrkneska dagblaðið Cumhuriyet birti í gær skopmyndir og greinar úr nýjasta tölublaði Charlie Hebdo, þó aðeins litla mynd af Múhameðsteikningunni á forsíðunni umdeildu. Önnur dagblöð í Tyrklandi birtu ekki myndir úr háðsritinu. Cumhuriyet hefur verið mjög gagnrýnið á Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og ritstjóri blaðsins sagði að markmiðið með birtingu skopmyndanna væri að láta í ljósi stuðning við Charlie Hebdo og tjáningarfrelsið.

Tyrkneskur dómstóll ákvað í gær að loka vefsíðum sem sýna forsíðu nýjasta tölublaðs háðsritsins vegna teikningarinnar af Múhameð spámanni.

Nokkrir fjölmiðlar á Vesturlöndum ákváðu að birta ekki myndir af forsíðu Charlie Hebdo, þeirra á meðal bandaríska dagblaðið The New York Times. Blaðið sagði að óttast væri að forsíðumyndin myndi leiða til enn meira ofbeldis.

Önnur blöð hafa ákveðið að sýna Múhameðsteikninguna umdeildu, þeirra á meðal The Washington Post, Frankfurter Allgemeine Zeitung í Þýskalandi, Corriere della Sera á Ítalíu og The Guardian í Bretlandi.

Fleming Rose, fyrrverandi menningarritstjóri danska dagblaðsins, Jyllands-Posten, sagði að það hefði ákveðið að birta ekki mynd af forsíðunni umdeildu af ótta við að vekja reiði. Blaðið birti skopteikningar af Múhameð spámanni sem leiddu til öldu mótmæla meðal múslíma árið 2005.

Vissu af hættunni

Hreyfing í Jemen, sem tengist hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, hefur lýst árásinni á skrifstofu Charlie Hebdo á hendur sér. Vitað er að árásarmennirnir, bræðurnir Said og Cherif Kouachi, höfðu verið í þjálfunarbúðum í Jemen.

Tólf manns létu lífið í árásinni, þeirra á meðal átta starfsmenn Charlie Hebdo. Þriðji hryðjuverkamaðurinn, Amedy Coulibaly, drap fjóra gyðinga í árás á verslun gyðinga í París tveimur dögum síðar og er einnig talinn hafa orðið lögreglumanni að bana síðar.

Fregnir herma að franska leyniþjónustan hafi lengi vitað af hættunni sem stafaði af árásarmönnunum þremur og þeir hafi verið „árum saman“ á lista bandarískra yfirvalda yfir hugsanlega hryðjuverkamenn.

Valls forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á franska þinginu í fyrradag að Frakkar hefðu hafið „stríð gegn hryðjuverkastarfsemi“ og ummæli hans minntu á yfirlýsingar George W. Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, eftir hryðjuverkin í New York og Washington 11. september 2001. Valls lagði þó áherslu á að múslímar myndu alltaf geta búið í Frakklandi.

Teikningu af Múhameð spámanni mótmælt í Túnisborg í gær. Dagblöð …
Teikningu af Múhameð spámanni mótmælt í Túnisborg í gær. Dagblöð í löndum múslíma hafa gagnrýnt teikninguna og lýst henni sem ögrun við múslíma sem líta á skopmyndir af spámanninum sem guðlast. AFP
Frá mótmælum í Túnis í gær.
Frá mótmælum í Túnis í gær. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka