Bresk og bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að taka höndum saman í baráttunni gegn öfgastefnu og hryðjuverkahópum. Sérstakur aðgerðarhópur verður settur á laggirnar og munu ríkin deila sérfræðiþekkingu sinni.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá þessu í dag eftir að hafa átt fund með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í Washington. Hann sagði að Bandaríkin og Bretland glímdu við eitraða hugmyndafræði ofstækisfullra hópa.
Sérstakur aðgerðahópur verður settur á laggirnar og skal hann skila Cameron og Obama sérstakri skýrslu um málið innan hálfs árs. Greint er frá þessu á vef BBC.
Þá greindi breski forsætisráðherrann frá því, að bresk stjórnvöld muni senda fleiri ómönnuð loftför, svokallaða dróna, sem munu aðstoða hersveitir sem berjast við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam á jörðu niðri.
Obama sagði að unnið væri hörðum höndum að því að koma í veg fyrir árásir hryðjuverkahópa og sigrast á þeim.
Cameron var spurður hvort árás á Bretland væri yfirvofandi. Hann sagði að viðbúnaðarstigið í Bretlandi væri alvarlegt, sem þýddi að miklar líkur væru á árás.