Öfgar aukast í Danmörku

Íraskir hermenn lyfta vopnum sínum.
Íraskir hermenn lyfta vopnum sínum. AFP

Öfgafullar hugmyndir Ríkis íslams eiga í auknum mæli upp á pallborðið hjá ungum og varnarlausum múslímum í Kaupmannahöfn að því er fram kemur í umfjöllun Berlingske. 

Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki Fjölbreytileikastofnunar Kaupmannahafnarborgar sjást aukin merki um öfgar hjá ungu fólki vegna stígandi í alþjóðlegum deilum en að sama skapi eru fjölskyldur meðvitaðri um ummerki slíkra öfga og leita í auknum mæli til stofnunarinnar af sjálfsdáðum.

Árið 2014 hafði Kaupmannahafnarborg 60 mál til meðferðar sem sneru að ungum Kaupmannahafnarbúum sem taldir voru eiga á hættu að vera snúið til öfga. Til samanburðar voru 94 slík mál til meðferðar samtals á þeim þremur árum sem á undan fóru. Tölurnar ná yfir nokkur tilfelli af öfgum tengdum þjóðernishyggju en meirihluti tilfellanna tengist öflum á borð við Ríki íslams. Í 26 tilfellanna hafði unga fólkið ýmist verið hvatt til þess að fara til herbúða öfgamanna í Sýrlandi og Írak eða var á leið þangað þá þegar. Samkvæmt borgaryfirvöldum hefur minnihlutinn endað með því að fara.

Árið 2014 tvöfaldaði Kaupmannahafnarborg fjárframlag til baráttu gegn öfgahyggju í 7,2 milljónir danskra króna eða um 150 íslenskar krónur. Fjölbreytileikastofnunin einbeitir sér að því að auka atvinnumöguleika og menntun ungs fólks í áhættuhópum auk sérstakra verkefna sem tengjast baráttu gegn fordómum og öfgahyggju í þjóðfélaginu. Þá hefur borgin á sínum snærum sérstaka liðveislu-aðila og foreldraþjálfara til að vinna gegn öfgum ungra einstaklinga.

Verðum að skapa móteitur gegn eitrinu

Ímaminn Fatih Alev tekur undir að aukinnar öfgahyggju gæti og þykir gott að borgin styðji við áhættuhópa með störfum og menntun en segir að meira þurfi til. Segir hann að lærðir og hófsamir ímamar séu virkir í að leiðrétta þá röngu mynd af íslam sem öfgahópar gefa ungu fólki.

„Danskir múslímar hafa ekki verið nógu góðir í að gefa þeim ungu aðra mynd. Þeir hafa svikið unga fólkið,“ segir hann. Hann segir að öfgafullu ungu fólki hafi verið þrýst út úr flestum dönskum moskum og að nú hírist það neðanjarðar, hittist í íbúðum og tali um stríðið gegn vestrinu.

„Þess vegna þurfa fleiri moskur að taka þátt í slagnum: það er á þeirra ábyrgð að gefa öfgafullum hugmyndum og óvinamyndum öfgahópa annan blæ. Það er verkefni samfélagsins að fá moskurnar til að taka þátt í að vinna gegn öfgahyggju. Við verðum að skapa móteitur gegn því eitri sem er að breiðast út“

Vilja dæma fyrir föðurlandssvik

Minnst 110 manns hafa farið frá Danmörku til Sýrlands eða Íraks til þess að berjast með öfgahópum og 16 eru taldir af. Í öllum löndum Evrópusambandsins samanlagt er talið að talan liggi milli 3.000 og 5.000 manns.

Meirihluti danskra þingmanna vill að hægt sé að dæma fólk sem heldur utan í þessum erindagjörðum fyrir föðurlandssvik. „Ef maður ferðast frá Danmörku og gengur til liðs við Ríki íslams og berst gegn dönskum hermönnum þá er ég þeirrar skoðunar að maður sé að fremja föðurlandssvik. Ég vil gjarna fullvissa mig um að lögfræðin haldi en þetta er skýrt fyrir mér stjórnmálalega séð,“ segir dómsmálaráðherrann Mette Frederiksen.

Danski hryðjuverkafræðingurinn Lars Erslev Andersen hefur bent á að frönsku hryðjuverkamennirnir sem stóðu bak við árásina á Charlie Hebdo myndu ekki falla í þennan flokk. Ekkert bendir til þess að Kouachi-bræðurnir hafi barist í Sýrlandi eða Írak þó svo að þeir hafi heimsótt leiðtoga al-Qaeda í Jemen.

„Þess vegna er ekkert sem bendir til þess að afturköllun vegabréfa og lokun evrópskra landamæra hefði hindrað þau hræðilegu hryðjuverk sem framin voru gegn Charlie Hebdo eða gíslatökurnar sem fylgdu í kjölfarið,“ segir Lars.

„Frönsk yfirvölld hefðu hinsvegar örugglega getað hindrað bæði hryðjuverkin í París og árásina á safnið í Brussel í maí 2014 ef þeir hefðu haft þekkta öfgahópa og -einstaklinga í Frakklandi í brennidepli. Allt bendir til þess að árásirnar í París hafi verið framdar af svokölluðum „einfara-hryðjuverkamönnum“ (d. soloterrorister).

Árið 2014 var Kaupmannahafnarborð með málefni 60 öfgafullra ungmenna á …
Árið 2014 var Kaupmannahafnarborð með málefni 60 öfgafullra ungmenna á sínu borði. Ómar Óskarsson
Mótmælandi heldur á skilti í mótmælum utan við franska sendiráðið …
Mótmælandi heldur á skilti í mótmælum utan við franska sendiráðið í Kuwait í gær. AFP
Menn færa varnarveggi fyrir bænastund í mosku í Frakklandi eftir …
Menn færa varnarveggi fyrir bænastund í mosku í Frakklandi eftir að reynt var að kveikja í henni á mánudag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert