Margt bendir til þess að samtökin al-Qaeda hafi verið að baki árásinni á franska tímaritið Charlie Hebdo 7. janúar. Grein samtakanna í Jemen gaf á miðvikudag út bæði skriflega og á myndbandi yfirlýsingu um að þau bæru ábyrgð á árásinni. Forusta samtakanna hefði ákveðið að ráðist skyldi á tímaritið. Engin nöfn voru nefnd.
Tveir bræður, Saïd og Chérif Kouachi, réðust inn á ritstjórnarskrifstofur tímaritsins. Samkvæmt The New York Times er nú talið að yngri bróðirinn, Chérif, hafi ferðast til Jemen 2011, sennilega á vegabréfi bróður síns. Þar hafi hann hlotið þjálfun og fengið 20 þúsund dollara í hendur. Peningarnir hafi verið ætlaðir til að skipuleggja hryðjuverk.
Bandarísk og frönsk yfirvöld segja að þó sé ekki útilokað að Saïd Kouachi hafi einnig farið til Jemen.
Chérif Kouachi sagði við franska sjónvarpsstöð eftir árásina á blaðið að hann hefði verið „sendur af al Qaeda í Jemen“ og bandaríski klerkurinn Anwar al-Awlaki, sem var veginn í drónaárás 2011, hefði fjármagnað hana.
Í blaðinu er bent á að standist fullyrðingin um að al-Qaeda í Jemen beri ábyrgð á árásinni sé þetta sú banvænasta, sem samtökin hafi skipulagt og fjármagnað á Vesturlöndum frá sprengjutilræðinu í London 2005 þegar 52 létu lífið. Þetta ætti að vera til áminningar um að enn stafi hætta af al-Qaeda, þótt athyglin í Evrópu og Bandaríkjunum hafi beinst að samtökunum Ríki íslams, sem hefur náð undir sig stórum landsvæðum í Írak og Sýrlandi og eru alræmd fyrir hrottaskap.
Deild al-Qaeda í Jemen kallar sig al-Qaeda á Arabíuskaga, á ensku skammstafað AQAP.
Pakistanski blaðamaðurinn Ahmed Rashid skrifar grein á vefsíðu blaðsins New York Review of Books þar sem hann segir að AQAP hafi hlotið allt of litla athygli á Vesturlöndum undanfarna mánuði. Um nokkurra ára skeið hafi verið alkunna bæði í röðum íslamista og vestrænna leyniþjónusta að öflugasta grein al Qaeda væri í Jemen. Þar væri veitt þjálfun í að búa til háþróaðar sprengjur og unnið að því að fá burðardýr og vígamenn af ýmsum þjóðernum til að gera sjálfsmorðsárásir til liðs við samtökin. AQAP ræður yfir landsvæði, en ólíkt Ríki íslams hafa samtökin lagt áherslu á að ráðast á Vesturlönd.
Frönsk yfirvöld vissu að bræðurnir, sem voru franskir ríkisborgarar með alsírskan bakgrunn, tengdust AQAP og grunaði að þeir hefðu hlotið þjálfun í Jemen 2011. Engu að síður var eftirliti með þeim hætt.
Það er kannski ekki að furða að athyglin hafi beinst að Ríki íslams. Samtökin hafa vaxið hratt. Sigrar þeirra hafa laðað að 18 þúsund erlenda vígamenn frá 90 löndum til að berjast í Írak og Sýrlandi. Öfgamenn í Evrópu og víðar líta einnig upp til samtakanna.
Taka verður alvarlega hættuna á því að þeir sem hafa gengið til liðs við Ríki íslams snúi aftur til síns heima og fremji hryðjuverk. Einnig er sú hætta að stuðningsmenn samtakanna, sem aldrei hafa farið neitt, láti til skarar skríða. Amedy Coulibali, félagi Kouachi-bræðranna, sem skaut lögreglumann sama dag og þeir réðust á Charlie Hebdo og tók síðan gísla í matvöruverslun gyðinga sagðist styðja Ríki íslams. Aðgerðir hans voru nefndar í áðurnefndri yfirlýsingu al-Qaeda, en samtökin lýstu ekki yfir ábyrgð á þeim.
Stuðningsmenn Ríkis íslams hafa látið til skarar skríða á Vesturlöndum, en samtökin leggja hins vegar áherslu á landvinninga í arabalöndum. Nú er horft til Mið-Austurlanda, en yfirlýst markmið er að stofna kalífat, sem nái frá Marokkó til Indlands. Þeir eru súnnítar og vilja steypa alla múslima í sama mót, harðlínu sinnar bókstafstrúar. Þeir eru í stríði við síta og hófsama múslima.
Rígur er á milli al Qaeda og Ríkis íslams, en Rashid segir að AQAP hafi staðið fyrir utan hann. Þrátt fyrir blóðugt borgarastríð í Jemen og stöðugar árásir bandarískra dróna séu samtökin öflug og langt frá því að vera brotin á bak aftur. Niðurstaða Rashids er sú að þrátt fyrir að Ríki íslams sé ógn sýni árásirnar í París að Vesturlöndum stafi enn mest hætta af al Qaeda.