Al-Qaeda hvarf í skuggann

Nasr al-Ansi, foringi úr al-Qaeda á Arabíuskaga, AQAP, lýsir yfir …
Nasr al-Ansi, foringi úr al-Qaeda á Arabíuskaga, AQAP, lýsir yfir ábyrgð samtakanna á árásinni á ritstjórn Charlie Hebdo. Í bakgrunni sjást myndir af bræðrunum, sem gerðu árásina, Chérif og Saïd Kouachi. EPA

Margt bend­ir til þess að sam­tök­in al-Qa­eda hafi verið að baki árás­inni á franska tíma­ritið Charlie Hebdo 7. janú­ar. Grein sam­tak­anna í Jemen gaf á miðviku­dag út bæði skrif­lega og á mynd­bandi yf­ir­lýs­ingu um að þau bæru ábyrgð á árás­inni. For­usta sam­tak­anna hefði ákveðið að ráðist skyldi á tíma­ritið. Eng­in nöfn voru nefnd.

Tveir bræður, Saïd og Chérif Kouachi, réðust inn á rit­stjórn­ar­skrif­stof­ur tíma­rits­ins. Sam­kvæmt The New York Times er nú talið að yngri bróðir­inn, Chérif, hafi ferðast til Jemen 2011, senni­lega á vega­bréfi bróður síns. Þar hafi hann hlotið þjálf­un og fengið 20 þúsund doll­ara í hend­ur. Pen­ing­arn­ir hafi verið ætlaðir til að skipu­leggja hryðju­verk.

Öflug­ast­ir í Jemen

Banda­rísk og frönsk yf­ir­völd segja að þó sé ekki úti­lokað að Saïd Kouachi hafi einnig farið til Jemen.

Chérif Kouachi sagði við franska sjón­varps­stöð eft­ir árás­ina á blaðið að hann hefði verið „send­ur af al Qa­eda í Jemen“ og banda­ríski klerk­ur­inn Anw­ar al-Awlaki, sem var veg­inn í dróna­árás 2011, hefði fjár­magnað hana.

Í blaðinu er bent á að stand­ist full­yrðing­in um að al-Qa­eda í Jemen beri ábyrgð á árás­inni sé þetta sú ban­væn­asta, sem sam­tök­in hafi skipu­lagt og fjár­magnað á Vest­ur­lönd­um frá sprengju­til­ræðinu í London 2005 þegar 52 létu lífið. Þetta ætti að vera til áminn­ing­ar um að enn stafi hætta af al-Qa­eda, þótt at­hygl­in í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um hafi beinst að sam­tök­un­um Ríki íslams, sem hef­ur náð und­ir sig stór­um landsvæðum í Írak og Sýr­landi og eru al­ræmd fyr­ir hrotta­skap.

Deild al-Qa­eda í Jemen kall­ar sig al-Qa­eda á Ar­ab­íu­skaga, á ensku skammstafað AQAP.

Pak­ist­anski blaðamaður­inn Ah­med Rashid skrif­ar grein á vefsíðu blaðsins New York Review of Books þar sem hann seg­ir að AQAP hafi hlotið allt of litla at­hygli á Vest­ur­lönd­um und­an­farna mánuði. Um nokk­urra ára skeið hafi verið al­kunna bæði í röðum íslam­ista og vest­rænna leyniþjón­usta að öfl­ug­asta grein al Qa­eda væri í Jemen. Þar væri veitt þjálf­un í að búa til háþróaðar sprengj­ur og unnið að því að fá burðardýr og víga­menn af ýms­um þjóðern­um til að gera sjálfs­morðsárás­ir til liðs við sam­tök­in. AQAP ræður yfir landsvæði, en ólíkt Ríki íslams hafa sam­tök­in lagt áherslu á að ráðast á Vest­ur­lönd.

Tengsl við AQAP kunn

Frönsk yf­ir­völd vissu að bræðurn­ir, sem voru fransk­ir rík­is­borg­ar­ar með als­írsk­an bak­grunn, tengd­ust AQAP og grunaði að þeir hefðu hlotið þjálf­un í Jemen 2011. Engu að síður var eft­ir­liti með þeim hætt.

Það er kannski ekki að furða að at­hygl­in hafi beinst að Ríki íslams. Sam­tök­in hafa vaxið hratt. Sigr­ar þeirra hafa laðað að 18 þúsund er­lenda víga­menn frá 90 lönd­um til að berj­ast í Írak og Sýr­landi. Öfga­menn í Evr­ópu og víðar líta einnig upp til sam­tak­anna.

Taka verður al­var­lega hætt­una á því að þeir sem hafa gengið til liðs við Ríki íslams snúi aft­ur til síns heima og fremji hryðju­verk. Einnig er sú hætta að stuðnings­menn sam­tak­anna, sem aldrei hafa farið neitt, láti til skar­ar skríða. Ame­dy Couli­bali, fé­lagi Kouachi-bræðranna, sem skaut lög­reglu­mann sama dag og þeir réðust á Charlie Hebdo og tók síðan gísla í mat­vöru­versl­un gyðinga sagðist styðja Ríki íslams. Aðgerðir hans voru nefnd­ar í áður­nefndri yf­ir­lýs­ingu al-Qa­eda, en sam­tök­in lýstu ekki yfir ábyrgð á þeim.

Stuðnings­menn Rík­is íslams hafa látið til skar­ar skríða á Vest­ur­lönd­um, en sam­tök­in leggja hins veg­ar áherslu á land­vinn­inga í ar­ab­a­lönd­um. Nú er horft til Mið-Aust­ur­landa, en yf­ir­lýst mark­mið er að stofna kalíf­at, sem nái frá Mar­okkó til Ind­lands. Þeir eru súnnít­ar og vilja steypa alla múslima í sama mót, harðlínu sinn­ar bók­stafstrú­ar. Þeir eru í stríði við síta og hóf­sama múslima.

Ríg­ur er á milli al Qa­eda og Rík­is íslams, en Rashid seg­ir að AQAP hafi staðið fyr­ir utan hann. Þrátt fyr­ir blóðugt borg­ara­stríð í Jemen og stöðugar árás­ir banda­rískra dróna séu sam­tök­in öfl­ug og langt frá því að vera brot­in á bak aft­ur. Niðurstaða Rashids er sú að þrátt fyr­ir að Ríki íslams sé ógn sýni árás­irn­ar í Par­ís að Vest­ur­lönd­um stafi enn mest hætta af al Qa­eda.

Nafn Anw­ars al-Awlak­is kem­ur ít­rekað upp í tengsl­um við hryðju­verk. Þar má nefna árás, sem tókst að af­stýra, á flug­vél yfir Detroit 2009, árás með hnífi á bresk­an þing­mann í London 2010, sprengju­til­ræðið þegar maraþon­hlaupið fór fram í Bost­on 2013 og nú full­yrti ann­ar Kouachi-bræðranna að hann hefði fjár­magnað árás­ina í Par­ís. Awlaki fædd­ist í Banda­ríkj­un­um 1971. Faðir hans er frá Jemen. Awlaki byrjaði að pre­dika um tví­tugt, varð her­skárri með tím­an­um og fór að reka áróður fyr­ir heil­ögu stríði eft­ir að hann flutti til Jemen 2004. Banda­ríkja­menn felldu hann þar í dróna­árás 2011, en „silf­ur­tunga“ hans heyr­ist á net­inu og áhrifa hans gæt­ir enn.
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert