Kona hálshöggvin fyrir morð

Konan var tekin af lífi í Mecca, heilögu borg múslíma.
Konan var tekin af lífi í Mecca, heilögu borg múslíma. AFP

Kona frá Búrma var tekin af lífi í Sádi-Arabíu á mánudaginn. Var hún ásökuð um morð á barni. Aftakan fór fram opinberlega í borginni Mekka. Konan var hálshöggvin og þurfti þrjú högg til þess að klára verkið. The Independent segir frá þessu.

Konan hét Laila Bint Abdul Muttalib Basim og bjó í Sádi-Arabíu. Hún var afhöfðuð með sverði eftir að hafa verið dregin um götur borgarinnar. Þurfti fjóra lögreglumenn til þess að halda konunni niðri, en hún hélt ávallt fram sakleysi sínu.

Var konan dæmd sek um kynferðislega misnotkun og morð á sjö ára stjúpdóttur sinni. Á myndbandi af aftökunni sem birt var á Youtube mátti sjá hvernig það þurfti þrjú högg til þess að taka konuna af lífi. Mátti jafnframt heyra konuna öskra stuttu áður: „Ég drap ekki. Ég drap ekki.“

Myndbandið hefur nú verið tekið út af Youtube. 

Samkvæmt frétt The Independent eru tvær leiðir til þess að afhöfða fólk í Sádi-Arabíu og er vitnað í aðgerðasinnann Mohammed al-Saeedi. „Ein leið er að gefa fanganum verkjalyf til þess að deyfa hann en hin leiðin er að sleppa verkjalyfjum,“ sagði hann í samtali við Middle East Eye. 

„Þessi kona var tekin af lífi án verkjalyfja. Þeir vildu gera sársaukann sem mestan.“

Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu sagði í yfirlýsingu að refsing konunnar hefði verið í samræmi við glæpinn sem hún var dæmd fyrir. 

Frá áramótum hafa sjö fangar verið teknir af lífi í Sádi-Arabíu með afhöfðun en árið 2014 voru alls 87 teknir af lífi með þeim hætti. Litið er á afhöfðanir sem mannúðlega aftökuleið í landinu en aðrar leiðir sem standa réttarkerfinu til boða er að láta grýta fólk til dauða og standa frammi fyrir aftökusveit. 

Réttarkerfið í Sádi-Arabíu hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarið í kjölfar þess að bloggarinn Raif Badawi var dæmdur til þess að þola þúsund svipuhögg og tíu ára fangelsi fyrir að móðga íslam. Í gær átti hann að fá fimmtíu svipuhögg en því var frestað. Í samtali við The Independent segir besti vinur hans, Ali A Rizvi, að svipuhöggunum hafi aðeins verið frestað og dómurinn standi enn. Á hann að þola fimmtíu svipuhögg á hverjum fimmtudegi næstu átján vikurnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert