Páfi veldur íhaldsmönnum hugarangri

Frans páfi hefur aflað sér óvildar ýmissa íhaldsmanna vegna yfirlýsinga …
Frans páfi hefur aflað sér óvildar ýmissa íhaldsmanna vegna yfirlýsinga um umhverfis- og efnahagsmál, meðal annars. FILIPPO MONTEFORTE

Frjálslyndari tón hefur kveðið við hjá kaþólsku kirkjunni eftir að Frans páfi tók við embætti. Bandarískir íhaldsmenn hafa meðal annars kallað páfa marxista af þessum sökum. Þeir óttast nú væntanleg tilmæli hans til kaþólikka heimsins um aðgerðir í loftslagsmálum sem þeir hafa lagst alfarið gegn.

Búist er við að Frans páfi muni birta svonefnt umburðarbréf sitt nú í sumar. Það eru skjöl sem yfirleitt eru notuð til að boða mikilvægustu kennisetningar páfa. Efni bréfsins að þessu sinni á að vera umhverfismál og hefur verið unnið að drögum þess um margra mánaða skeið, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.

Páfi hefur undanfarið sagt að hnattræn hlýnun sé „að mestu leyti“ af völdum manna og að hann vilji að umburðarbréfið birtist vel áður en loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna kemur saman í París í desember. Búist er við því að þar muni hann gefa út tilmæli um siðferðislega skyldu kaþólikka heimsins til að grípa til aðgerða til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

„Ég veit ekki hvort að [verk manna] sé eina orsökin en aðallega, að mestu leyti er það maðurinn sem hefur löðrungað náttúruna. Við höfum á vissan hátt tekið yfir náttúruna,“ sagði Frans páfi þegar hann ferðaðist um Filippseyjar í síðustu viku.

Hræðast að páfi segi eitthvað sem þeir geta ekki fellt sig við

Hægrimenn í Bandaríkjunum hafa yfirleitt átt hauk í horni í formi kaþólsku kirkjunnar hvað varðar mál eins og hjónabönd samkynhneigðra og fóstureyðingar. Frans páfi hefur hins vegar talað á mun frjálslyndari og umburðarlyndari nótum í þessum málum en forverar hans. Þar að auki hefur hann gagnrýnt efnahagskerfi heimsins og kapítalismann harðlega. Þetta varð meðal annars til þess að íhaldssami útvarpsþáttastjórnandinn Rush Limbaugh kallaði efnahagssýn páfa „hreinan marxisma“. Sjálfur segist páfi aðeins vitna í kenningar kirkjunnar um hjálp við fátæka.

Afstaða páfa í loftslagsmálum veldur bandarískum íhaldsmönnum nú hugarangri þar sem þeir hafa fram að þessu ýmist hafnað því að hnattræn hlýnun eigi sér stað yfir höfuð eða að ekki hafi verið sýnt fram á að það sé af völdum manna.

„Frans páfi, og ég segi þetta sem kaþólikki, er alger hörmung þegar kemur að opinberum ummælum hans. Hvað varðar efnahagslífið, og sérstaklega í umhverfismálum, hefur hann tekið upp málstað öfgavinstrisins og hefur tileinkað sér hugmyndafræði sem gerir fólk fátækara og minna frjálst,“ skrifaði Steve Moore, yfirhagfræðingur íhaldssömu hugveitunnar The Heritage Foundation.

David Cloutier, guðfræðingur við Mount St. Mary's Háskólann í Maryland, segir íhaldsmennina óttast að páfi muni segja eitthvað í umburðarbréfi sínu sem þeir geti ekki fellt sig við. Það muni setja þá í afar snúna stöðu.

„Þeir hafa áhyggjur af lausninni. Loftslagsbreytingar eru stærsta vandamálið sem þarf að leysa með samvinnu. Þær munu krefjast stefnubreytingar á sveitarstjórnar-, ríkis- og alríkisstiginu og þær munu krefjast alþjóðlegrar samvinnu, sem þýðir Sameinuðu þjóðirnar,“ segir Anthony Leiserowitz, forstöðumaður verkefnis Yale-háskóla um upplýsingar um loftslagsmál.

Frétt AP af áhyggjum íhaldsmanna af umhverfisstefnu páfa

Fyrri frétt mbl.is: Páfi lætur til sín taka í loftslagsmálum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert