Argentínski saksóknarinn Alberto Nisman fannst látinn í íbúð sinni í Puerto Madero í Buenos Aires í nótt. Nisman átti að bera vitni fyrir þingnefnd í dag, en hann hefur sakað forseta Argentínu, Cristinu Kirchner, um að hafa hamlað rannsókn á sprengjuárás á höfuðstöðvar AMIA árið 1994.
85 létust og 300 særðust í sprengingunni í byggingu styrktarfélags gyðinga í Argentínu, Asociación Mutual Israelita Argentina, árið 1994. Nisman hefur leitt rannsókn málsins frá 2004 og m.a. sakað Íran um að standa að baki voðaverkinu. Hefur saksóknarinn haldið því fram að Kirchner hafi staðið í vegi fyrir rannsókn málsins til að afla sér velvildar íranskra stjórnvalda.
Ekki liggur fyrir hvernig andlát Nisman bar að. Í síðustu viku fór hann fram á að meint afskipti Kirchner af rannsókn sprengjumálsins yrðu rannsökuð og átti hann að mæta fyrir þingnefnd í dag.
Nisman hefur einnig sakað Carlos Menem, fyrrverandi forseta, um að hafa komið að því að hindra rannsókn málsins.