Óánægjan kraumar undir

Meðlimir Youth Pan-Malaysian Islamic Party afhentu yfirlýsingu gegn birtingu skopmynda …
Meðlimir Youth Pan-Malaysian Islamic Party afhentu yfirlýsingu gegn birtingu skopmynda af Múhameð spámanni í Charlie Hebdo í sendiráði Frakka í Kuala Lumpur í dag. AFP

Það reynir á þolinmæði hófsamra múslima í löndum á borð við Indónesíu og Malasíu að íbúar vestar í heiminum grípi til varna fyrir skoptímaritið Charlie Hebdo. Birtingar blaðsins á skopmyndum af Múhameð spámanni hafa ekki valdið miklum usla á yfirborðinu í grannríkjunum tveimur í Suðaustur-Asíu, en óánægja kraumar undir niðri og óttast menn að gagnrýnileysi Vesturveldanna gagnvart myndbirtingunum muni auka fylgi við málstað samtaka á borð við Ríki íslam.

„Enginn getur réttlætt þessi dráp. Trú okkar leyfir það ekki,“ segir Zamfis Anuar, grunnskólakennari í Kuala Lumpur, um árásirnar í París í samtali við AFP. Hann segir að hins vegar fái viðbrögð manna á Vesturlöndum múslima til að hugsa: „Hverjir eru vinir þínir?“

Bæði í Indónesíu og Malasíu hafa yfirvöld verið á tánum vegna sannreyndrar getu Ríkis íslam til laða til sín borgara ríkjanna til þátttöku í heilögu stríði í Sýrlandi.

Margir múslimar í Suðaustur-Asíu, líkt og víðar, trúa því að á Vesturlöndum sé í gangi samsæri gegn íslam, segir Noorhaidi Hasan, sérfræðingur um íslam við Sunan Kalijaga Islamic University í Indónesíu. Hann segir viðbrögðin við myndbirtingum Charlie Hebdo líkleg til að styrkja þá skoðun manna.

Markvissar aðgerðir gegn hryðjuverkum bæði í Indónesíu og Malasíu hafa dregið úr mætti þarlendra öfgahópa en að minnsta kosti hundruð íbúa ríkjanna hafa gengið í lið með Ríki íslam. Þá hefur íhaldssamur flokkur í að minnsta kosti einu ríki í Malasíu kallað eftir því að sharia-lög verði innleidd.

Joseph Liow, sérfræðingur í hernaðarmálum í Suðaustur-Asíu við Brookings-stofnunina í Bandaríkjunum, segir að í augum hófsamra múslima sé Charlie Hebdo öfgasinnað blað.

Ráðamenn bæði í Indónesíu og Malasíu hafa fordæmt árásirnar í París en jafnframt ítrekað að enginn ætti að hæðast að eða óvirða trúarbrögð.

„Múslimar tala ekki lengur um árásina, heldur óvinsemd Vestursins,“ segir Mohamad Asri Zainal Abidin, fyrrverandi mufti í malasíska ríkinu Perlis. „Margir múslimar gætu farið að trúa því að það sé ekkert rými fyrir góð samskipti við Vestrið, sem gerir út um vonir hófsamra.“

Yfirvöld í Malasíu biðluðu á mánudag til íslamskra áhrifavalda í landinu um að beita afli sínu gegn þeim sem hvetja til heilags stríðs.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert