Segir þúsundir rússneskra hermanna í Úkraínu

Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu.
Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu. AFP

Forseti Úkraínu, Petro Porosjenkó, sagði í dag að yfir 9 þúsund rússneskir hermenn tækju þátt í að berjast við úkraínska stjórnarherinn í austurhluta landsins við hlið aðskilnaðarsinna. Mikil átök hafa geisað á svæðinu að undanförnu.

Fram kemur í frétt AFP að ráðamenn í Rússlandi hafi hafnað því alfarið að rússneskir hermenn væru í Úkraínu. Porosjenkó sagði ennfremur að yfir 500 rússneskir skriðdrekar væru í austurhluta Úkraínu auk stórskotaliðs og brynvagna til herflutninga. Gervihnattamyndir sem teknar hafa verið á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) styðja þær yfirlýsingar. Rússar segja myndirnar annað hvort falsaðar eða að rangur skilningur hafi verið lagður í þær.

Haft er eftir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í fréttinni að það sé ekki nýtt að Rússar séu sakaðir um að vera með herlið í Úkraínu. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda séu ávallt þau sömu, að biðja um sannanir. „En þeir annað hvort vilja ekki leggja þær fram eða einfaldlega geta það ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert