Abdullah bin Abdulaziz, konungur Sádí-Arabíu, lést á sjúkrahúsi í dag, rúmlega níræður að aldri. Samkvæmt tilkynningu frá konungsfjölskyldunni hefur bróðir hans, Salman, tekið við konungsdæminu. Abdullah hafði legið á sjúkrahúsi um nokkurra vikna skeið með sýkingu í lungum.
Abdullah var krýndur konungur landsins árið 2005 en hann hafði átt við heilsufarsvandamál að stríða undanfarin ár, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Áður en tilkynnt var um andlát hans voru vers úr Kóraninum leikin í ríkissjónvarpinu en það þýðir oft að dauðsfall hafi orðið í konungsættinni.
Í frétt The Washington Post af andláti konungs kemur fram að hann hafi getið sér orð sem umbótamaður án þess þó að breyta stjórnskipulagi landsins að ráði. Hann dældi meðal annars milljörðum dollara í að umbylta menntakerfi landsins, opnaði efnahagslífið og dró úr valdi trúarlögreglunnar. Engu að síður eru völd konungsfjölskyldunnar yfir landinu enn sterkari nú. Umbætur hans hafi ekki náð til stjórnmálalífsins. Gagnrýnendur hafi verið handteknir eða þaggað niður í þeim og hætta hafi verið við tilraun til kosninga.
Frétt BBC af andláti Abdullah konungs