Stjórnvöld í Filippseyjum hafa nú verið gagnrýnd eftir að ásakanir þess efnis að fátækir hafi verið faldir fyrir páfanum í heimsókn hans komu upp.
Félagsmálaráðherra landsins, Corazon Soliman hefur staðfest að næstum því fimmhundruð manns voru fjarlægðir frá götum Manila áður en páfinn heimsótti borgina. Var farið með fólkið á hótel í úthverfi borgarinnar.
Þingmaðurinn Terry Ridon hefur nú kallað eftir því að málið yrði rannsakað.
Frans páfi heimsótti Filippseyjar í síðustu viku og yfirgaf landið á mánudag. Ridon segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi verið „alveg hræðilegar, í ljósi þess að Frans páfi heimsótti landið okkar, fyrst og fremst til þess að sjá og tala við þá fátæku.“
Filippeyskir fjölmiðlar segja að Ridon ætli að láta Soliman útskýra málið fyrir þingmönnum. Ráðherrann hefur sagt í viðtölum að heimilislausar fjölskyldur hefðu verið fjarlægðar stuttu áður en páfinn kom til landsins.
Margar þeirra bjuggu við strönd Manila flóans, en þar prédikaði páfinn í messu sem sex milljónir sóttu.
Farið var með fólkið á Chateau Royale hótelið í útjaðri borgarinnar en nótt þar kostar tugi þúsunda. Farið var aftur með fólkið til Manilla eftir að páfinn fór. Að sögn ráðherrans býr fólkið nú í ýmsum ríkisstofnunum í Manila.
Varði ráðherrann aðgerðirnar og sagði þær hafa verndað fólkið gegn stórum hópi fólks og glæpum sem því geta fylgt. Bætti hún við að þetta hafi jafnframt verið hluti af áætlun til þess að flytja fólkið af götunni
„Hluti af þessu snerist um að venja fólkið við herbergi með hurð og klósettum,“ sagði Soliman í samtali við AFP.
Lagði hún áherslu á að það hafi aldrei verið ætlunin að fela fólkið og sagði að páfinn hefði séð hreysi þeirra fátæku og heimilislausa í ferð sinni.