Fertugur karlmaður var á fimmtudaginn dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir morð að yfirlögðu ráði í borginni Genf í Sviss en hann myrti eiginkonu sína í afbrýðisemi með því að kyrkja hana með belti. Þvínæst losaði hann sig við lík hennar í ána Rón.
Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.ch að maðurinn, sem er franskur ríkisborgari en ættaður frá Sri Lanka, hafi ráðist á eiginkonu sína í júní árið 2012 á heimili þeirra í Genf. Tvö börn þeirra, sjö og níu ára, voru sömuleiðis í íbúðinni. Maðurinn hafði komist að því að konan, sem var 32 ára að aldri, hefði haldið við annan mann í nokkra mánuði. Konan hafði tjáð honum að hún vildi skilnað en þau voru þegar farin að sofa í sitt hvoru herberginu.
Dómarinn í málinu sagði framburð barnanna hafa skipt sköpum en þau báru að faðir þeirra hefði sagt þeim eftir að hafa myrt móður þeirra að hún hefði farið með elskhuga sínum og að hún elskaði þau ekki lengur. Maðurinn var handtekinn þremur dögum eftir morðið þegar lík konunnar fannst í ánni og hefur hann verið í gæsluvarðhaldi síðan. Verjandi mannsins byggði vörn hans á því að um ástríðuglæp hafi verið að ræða en saksóknari sagði morðið hafa verið kaldrifjað. Maðurinn hyggst áfrýja dómnum.