Hætti að ganga í jógabuxum fyrir eiginmanninn

Veronica ásamt eiginmanni sínum.
Veronica ásamt eiginmanni sínum. Skjáskot af vef Christian Today

Nokkurs uppnáms gætir nú á netheimum eftir að kristni bloggarinn VeronicaPartridge birti pistil um þá ákvörðun sína að hætta að ganga í leggings- og jógabuxum. Ákvörðun sína byggir Partridge á því að þröngar buxur valdi því að karlmenn, aðrir en eiginmaður hennar, hugsi lostafullar hugsanir.

Deilingar á bloggi Partridge á samfélagsmiðlum skipta tugþúsundum og hún hefur jafnvel varið þessa ákvörðun sína í spjallþættinum Good Morning America. Hún segist ekki vera að reyna að leggja fólki boð og bönn í klæðaburði og að ákvörðunina hafi hún tekið eftir spjall við vinkonur sínar.

„Guð breytti [skoðunum mínum] í hjarta mér í miðju samtalinu og í stað þess að hunsa sannfæringu mína ákvað ég að það væri tímabært að byrja að hlusta á hana og grípa til aðgerða,“ skrifar Partridge.

Partridge ræddi þessar hugmyndir við eiginmann sinn sem viðurkenndi að hann ætti erfitt með að horfa ekki á konur í jógabuxum. Þetta styrkti afstöðu Partridge.

„Ef það er erfitt fyrir eiginmann minn sem elskar, heiðrar og virðir mig, að halda augunum einbeittum fram á við, hversu mikið erfiðara er það þá fyrir mann sem hefur ekki sömu sjálfsstjórn? Ef karlmenn vilja horfa munu þeir horfa en afhverju að tæla þá? Er mögulegt að þunnu, aðsniðnu jógabuxurnar eða leggings geti látið giftan (eða einhleypan) mann horfa á konu á hátt sem hann ætti aðeins að beina að eiginkonu sinni?“

Partridge ákvað að binda þess heit að klæðast einungis slíkum buxum heima við og ekki meðal almennings nema í síðum bol sem hylur rassinn.

„Ég vil líka setja besta fordæmið um hvernig maður á að klæðast fyrir dóttur mína. Ég vil að hún viti að gildi hennar felst ekki í því hvernig likami hennar lítur út eða hvernig hún klæðir sig heldur í þeim manndómi og persónuleika sem guð hefur gefið henni.“

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert