Leiðtogi róttæka vinstriflokksins Syriza, Alexis Tsipras, hét því í nótt að binda enda á fimm ára tímabil „niðurlægingar“ og „sársauka“ grísku þjóðarinnar, eftir að flokkur hans sigraði í þingkosningum í landinu í gær.
Syriza hlaut 149 sæti á þinginu og er flokkurinn því aðeins tveimur sætum frá hreinum meirihluta. Samkvæmt frétt BBC veldur sigur flokksins auknum áhyggjum yfir framtíð Grikklands innan Evrópusambandsins.
Sagði Tsipras jafnframt að tíma aðhaldsaðgerða í Grikklandi, sem haft hefðu hörmulegar afleiðingar fyrir grísku þjóðina, væri nú lokið.
Efnahagskerfi landsins hefur komið illa út úr efnahagshruninu 2008 og hefur atvinnuleysi í landinu verið vandamál í nokkur ár og valdið aukinni fátækt meðal Grikkja.
Talið er að sigur Syriza muni hafa áhrif á önnur lönd Evrópu. Forseti hins þýska Bundesbank, Jens Weidmann, sagðist í gær vona að „nýja gríska ríkisstjórnin myndi ekki lofa neinu sem hún gæti ekki staðið við og landið hefði ekki efni á“.
Tsipras hefur sagt að nú vilji Grikkland vinna með Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að raunhæfu samkomulagi um skuldir landsins. Samkvæmt frétt BBC lofaði hann að losa Grikkland við helming skulda sinna en vill þó að landið haldi áfram með evruna sem gjaldmiðil.
Evran hefur veikst töluvert undanfarið og hefur hún nú ekki verið lægri í ellefu ár.
Reiðubúinn að semja við kröfuhafa