Fór með líkið á lögreglustöðina

Wikipedia

Rúmlega fertugur karlmaður myrti fyrrverandi eiginkonu sína á þriðjudaginn og ók í kjölfarið með lík hennar á næstu lögreglustöð og gaf sig fram. Haft er eftir lögreglumönnum, sem tóku við líkinu og handtóku manninn í framhaldinu, á fréttavefnum Thelocal.fr að óneitanlega sé um mjög óvenjulegt mál að ræða.

Fram kemur í fréttinni að atburðurinn hafi átt sér stað í frönsku borginni Rennes. Maðurinn kyrkti konuna með vír á heimili hennar. Tveimur tímum síðar ákvað hann að afhenda lögreglunni líkið. Kom hann því í kjölfarið fyrir í farangursrými bifreiðar sinnar og ók af stað. Að sögn til þess að börn þeirra myndu ekki sjá það.

Haft er eftir lögregluforingjanum Marc Guillemois að maðurinn hafi verið hinn rólegasti þegar hann gaf sig fram. Tilkynnti hann lögreglunni um morðið og sagði lík konunnar vera í bifreiðinni. Lögreglan leitaði í henni í kjölfarið og fann líkið.

Maðurinn, sem er alsírskur ríkisborgari, hafði að baki feril hótana og ofbeldis í garð konunnar. Þau höfðu skilið á síðasta ári en hann kom eftir sem áður gjarnan í heimsókn til þess að hitta börn þeirra. Hann stendur frammi fyrir lífstíðarfangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert