Neðanjarðarmenningin sem þrífst í Soho-hverfinu í Lundúnum er á undanhaldi eftir tilraunir borgarstjórnar til að hreinsa hverfið. Þar hefur vínbörum verið komið fyrir í stað verslana með kynlífstæki og lúxusíbúðir byggðar þar sem áður stóðu næturklúbbar.
Ekki eru allir jafnhrifnir af þessu og óttast margir að hverfið tapi einkennum sínum eftir tilburði borgarstjórnar. Hverfið hafi verið suðupottur hugmynda enda þekkt að margir nú heimsþekktir listamenn hafi dvalið þar í styttri eða lengri tíma á meðan þeir reyndu að koma sér á framfæri.