Mikið gleði braust út á mörkuðum er grísk stjórnvöld uppljóstruðu um hugmyndir sínar um skuldaendurskipulagningu. Þær felast m.a. í því að skipta út núgildandi skuldabréfum fyrir önnur sem myndu tengja endurgreiðslur við efnahagslega afkomu ríkisins. Þá myndu grísk skuldabréf í eigu evrópska seðlabankans gilda um óákveðin tíma.
Í Aþenu hækkuðu hlutabréf um 11% eftir að fregnir bárust af tillögunum, og markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum tóku jafnframt við sér. Sérfræðingar sögðu auknar líkur á því að stjórnvöld í Grikklandi og lánadrottnar þeirra næðu samkomulagi um nýja efnahagsáætlun fyrir landið.
Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, sagðist hafa trú á því að samhljómur gæti náðst um skilmála þeirra lána sem veitt hafa verið Grikkjum og hét kollega sínum, Alexis Tsipras, að ítölsk stjórnvöld myndu leggja sitt af mörkum til að svo mætti verða. Renzi og Tsipras funduðu í Róm í dag.
Tsipras sagði að breytingar þyrftu að verða í Evrópu og að setja þyrfti samfélag og vöxt framar stefnumótun fátæktar og óöryggis.
Forsætisráðherrann ítalski tjáði sig ekki beint um tillögur Grikkja en sagði að þær yrðu til umræðu á fundi Evrópuleiðtoga í næstu viku. Hann sagði að heimsbyggðin kallaði eftir því að Evrópa fjárfesti í vexti, ekki aðhaldsaðgerðum.
Áhugamenn um efnahagsstöðugleika í Evrópu horfa nú til fundar Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, og Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, á fimmtudag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vildi ekki tjá sig um hugmyndir Grikkja í dag en sagði augljóst að nýkjörin stjórn ynni að því að móta afstöðu sína. AFP hefur eftir ónefndum þýskum embættismönnum að Grikkir hafi afar lítið rúm til að vinna með hvað varðar endurskipulagningu skulda ríkisins.