50% Dana vilja takmarka fjölda múslíma í landinu

EPA

Helmingur Dana vill að hömlur verði settar á þann fjölda múslíma sem fær að búa í landinu. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar en innan við fimm prósent Dana eru múslímar.

Í rannsókn sem YouGov vann fyrir Metroxpress kemur fram að fjölmargir þeirra sem vildu að mörk yrðu sett hvað varðar trúarskoðanir þeirra sem eru íslamtrúar töldu að miða ætti við að hlutfall múslíma færi ekki yfir 5%.

Aftur á móti sögðu 425 aðspurðra að ekki ætti að setja nein mörk hvað varðar fjölda múslíma og að ekki ætti að setja fólk í dilka eftir trúarskoðunum. 7% aðspurðra töldu að útiloka ætti múslíma alfarið frá því að búa í Danmörku.

Talsmaður danska Þjóðarflokksins, sem berst gegn innflytjendum, segir að niðurstaða könnunarinnar sýni heilbrigða skynsemi dönsku þjóðarinnar.

„Ég lít á niðurstöðuna sem tákn um heilbrigða skynsemi Dana og miklar áhyggjur þeirra af því sem er að gerast í landinu okkar og hvað fylgi mikilli fjölgun innflytjenda,“ segir Martin Henriksen í viðtali við Metroxpress. 
 
Bent Greve, prófessor í félagsfræði og alþjóðafræðum við háskólann í Hróarskeldu, lítur niðurstöðuna öðrum augum. Hann segir að umburðarlyndi og skilningur Dana á stöðu annarra eigi undir högg að sækja. Á sama tíma og atburðirnir í Frakklandi hafi haft þau áhrif að ákveðins misskilnings gæti á þann hátt að einhverjir telja að þar sem nokkrir múslímar eru ofstækismenn þá hljóti það að gilda um alla þá sem eru íslamtrúar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert