Kanslari Þýskalands, Angela Merkel og forseti Frakklands, François Hollande, munu koma til Moskvu í dag eftir að hafa fengið jákvæð viðbrögð frá ráðamönnum í Kænugarði við áætlun um friðarsamkomulag í þeirri von að stöðva blóðbaðið í Úkraínu.
Forseti Úkraínu, Petró Porósjenkó, segir að viðræður við Merkel og Hollande hafi vakið upp vonir um að friður sé í sjónmáli en í tíu mánuði hefur verið hart barist í landinu.
Þau Merkel og Hollande munu funda með forseta Rússlands, Valdimír Pútín, síðar í dag en vesturveldin telja að Rússar standi á bak við uppreisnarherinn í Úkraínu. Vonast þau til þess að Pútín riti undir friðarsamkomulagið á fundinum.