Slökktu þeir á röngum hreyfli?

Báðir hreyflar flugvélar TransAsia sem hrapaði í Taívan í vikunni, voru óvirkir en hún hrapaði í ána. Talið er að í það minnsta 35 manns hafi látist í slysinu.

Flugmaðurinn hélt enn um stýrið er lík hans fannst í flugstjórnarklefanum. Hann hafði unnið þrekvirki við að forðast þéttbýli til að afstýra stórslysi.

Gögn úr flugrita vélarinnar hafa nú verið gerð opinber. Meðal þess sem rannsóknarnefnd flugslysa komst að var að flugfélagið, TransAir Airways, hafði ekki sinnt um þriðjungi þeirra krafna sem komu fram í kjölfar annars mannskæðs slyss sem varð fyrir sjö mánuðum í vesturhluta Taívans.

Nefndin sem fer með rannsókn slyssins segir að eldur hafi kviknað í öðrum hreyfli vélarinnar, sem hrapaði á miðvikudag. Slökkt hafði verið á hinum hreyflinum. 

„Viðvörunarljós vegna elds kviknuðu vegna annars hreyfilsins kl. 10.53 þegar vélin var í um 1.200 feta hæð,“ segir formaður rannsóknarnefndarinnar, Thomas Wang. „Síðan var slökkt á hinum hreyflinum. Flugstjórinn reyndi að kveikja aftur á hreyflunum en án árangurs. Það þýðir, að á síðustu augnablikunum sem vélin var á flugi, var slökkt á báðum hreyflunum. Við heyrðum neyðarkallið, Mayday, kl. 10.54,“ segir hann. 

Wang segir ekki ljóst hvers vegna slökkt hafi verið á öðrum hreyflinum. „Við eigum enn eftir að komast að því.“ Á vefsíðunni Flightradar24 segir að líklega hafi flugmennirnir gert mistök. 

„Gögn úr flugritanum benda til að flugmennirnir hafi slökkt á röngum hreyfli og misst allt af um einni mínútu eftir flugtak,“ segir á Twittersíðu flugsíðunnar.

Vél TransAsia hrapaði stuttu eftir að hafa tekið á loft frá Songshan-flugvellinum í Taipei. Á myndum sem náðust af slysinu má sjá vélina rekast á umferðarbrú og hvernig henni var stýrt á milli bygginga. Hún hafnaði að endingu í Keelung-ánni.

Fimmtán manns lifðu slysið af og enn er farþega leitað í ánni. Átta manns er enn saknað.

 Flugmaðurinn Liao Chien-tsung er sögð hetja fyrir að reyna að stýra vélinni, með 53 farþegum og fimm í áhöfn um borð, frá þéttbýlissvæðum. Lík hans fannst í flugstjórnarklefanum og hélt hann þá enn um stýrið með báðum höndum. Fætur hans voru brotnir á mörgum stöðum, að því er fram kemur í dagblaðinu China Times.

„Hann glímdi við að halda um stýrið allt fram á síðustu stundu þegar vélin hrapaði í ánna, hann reyndi að halda stefnu hennar og draga úr mannfalli,“ segir í frétt blaðsins sem höfð er eftir einum þeirra sem kemur að rannsókn slyssins.

Flugmálayfirvöld í Taívan segja að vélin hafi einnig lent í vandræðum með hreyflana nýverið í flugi frá Toulous í Frakklandi til Macau.

„Þá missti annar hreyfillinn afl í fluginu og var skipt um hann,“ segir Clark Lin, yfirmaður flugmálastjórnar í Taívan.

 22 flugvélar frá tveimur taívönskum flugfélögum hafa verið kyrrsettar í kjölfar slyssins á miðvikudag. Þá hefur verið ákveðið að TransAsia megi ekki bæta við nýjum flugleiðum næstu tólf mánuðina. Í ljós hefur komið að félagið fór ekki að öllum þeim kröfum sem gerðar voru í kjölfar slyssins í júlí á síðasta ári. Í því fórust 48 manns. Flestar kröfurnar snérust um umbætur í öryggismálum og þjálfun starfsmanna. Aðeins um þriðjungi þeirra hefur verið sinnt.

Ættingjar bíða við árbakkann eftir fréttum af ástvinum sínum sem …
Ættingjar bíða við árbakkann eftir fréttum af ástvinum sínum sem voru um borð í vél TransAsia. AFP
Umfangsmikil leit stendur yfir í ánni en átta er enn …
Umfangsmikil leit stendur yfir í ánni en átta er enn saknað. Slysið varð á miðvikudag. AFP
Forseti Taívans, Ma Ying-jeou, heimsækir einn þeirra sem lifði slysið …
Forseti Taívans, Ma Ying-jeou, heimsækir einn þeirra sem lifði slysið af. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert