Skæruliðar vilja að fegurðardrottningin hjálpi

Paulina Vega er Ungfrú alheimur.
Paulina Vega er Ungfrú alheimur. EPA

Skæruliðasamtökin FARC í Kólumbíu hafa beðið nýkrýnda alheimsfegurðardrottningu um aðstoð í friðarviðræðum við stjórnvöld í landinu.

Samtökin birtu yfirlýsingu á vefsíðu sinni þar sem þeir segja að ungfrú alheimur, hin kólumbíska Paulina Vega, hafi að fyrrabragði boðist til að aðstoða.

Vega er 22 ára. Hún hefur ekki svarað tilboði FARC. Friðarviðræður hafa verið í gangi milli hreyfingarinnar og stjórnvalda meira og minna í tvö ár. Samtökin hafa verið starfandi í um hálfa öld. Viðræðurnar fara fram á Kúbu en þær eru nú komnar í hnút.

Í aðdraganda keppninnar, Ungfrú alheims, sagði Vega að hún vildi gjarnan að friður kæmist á í heimalandi sínu.

Talið er að um 220 þúsund manns hafi fallið í átökum FARC og kólumbíska hersins frá því að samtökin voru stofnuð árið 1964.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert