Valdamikill kaupsýslumaður tekinn af lífi

EPA

Kínversk yfirvöld hafa tekið valdamikinn kaupsýslumann af lífi en Liu Han, sem áður var stjórnarformaður Hanlong Group námafyrirtækisins, var dæmdir til dauða í maí fyrir glæpastarfsemi sem minnti helst á mafíuna.

Auk Liu Han var yngri bróðir hans, Liu Wei og þrír aðrir starfsbræður þeirra, teknir af lífi í nótt, samkvæmt frétt Xinhua.

Í frétt BBC kemur fram að Liu er talinn hafa unnið með Zhou Yongkang, sem áður var yfirmaður ör­ygg­is­mála í Kína og nefnd­ar­manni í fasta­nefnd stjórn­málaráðs Komm­ún­ista­flokks­ins, en sætir nú rannsókn vegna spillingar.

Hanlong Group er risastór fyrirtækjasamsteypa með höfuðstöðvar í Sichuan héraði. Á fyrirtækið meðal annars námur, fjarskipta- og lyfjafyrirtæki. Sem yfirmaður fyrirtækisins var Liu Han afar áhrifamikill sem og forríkur.

Í ljós hefur komið að fyrirtækið og stjórnendur þess beittu ýmsum brögðum til að ná sínu fram og halda völdunum í héraðinu meðal annars með mútum til handa embættismönnum.

Undanfarna mánuði hefur staðið yfir rannsókn á nokkrum háttsettum embættismönnum í Sichuan héraði en Zhou Yongkang var valdamesti maður héraðsins. Zhou var handtekinn í desember og situr í gæsluvarðhaldi.

Kaupsýslumaður dæmdur til dauða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert