Náinn samstarfsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hefur sagt við Evrópuþingið að allsherjarstríð gæti brotist út ákveði bandarísk stjórnvöld að útvega Úkraínumönnum vopn í baráttunni við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins.
Alexei Pushkov, sem er rússneskur þingmaður og formaður utanríkismálanefndar neðri deildar þingsins, ávarpaði um 100 Evrópuþingmenn á fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins. Þetta kemur fram á vef BBC.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær, það það kæmi til greina að senda Úkraínumönnum vopn takist mönnum ekki að binda enda á stríðsátökin við samningaborðið.
Pushkov, sem er á lista bandarískra stjórnvalda yfir einstaklinga sem eru beittir viðskiptaþvingunum, sagði að bandarísk vopn myndu leiða til frekari stríðsátaka og ógna öryggi Evrópu.
Pushkov er hins vegar ekki á lista ESB yfir háttsetta rússneska stjórnmálamenn og kaupsýslumenn sem hefur verið meinað að ferðast til Evrópu og eiga eignir sem búið er að frysta í kjölfar þess að Rússa innlimuðu Krímskaga í mars á síðasta ári.
Utanríkismálanefndin bauð honum til Strassborgar. Þar sagði Pushkov ennfremur, að þátttaka Bandaríkjamanna í Víetnamstríðinu á sjöunda áratug síðustu aldar hafi hafist með vopnaflutningi.
„Þeir byrja á því að senda vopn, svo senda þeir hernaðarráðgjafa, og síðan hermenn til að vernda ráðgjafana og loks hermenn til að berast við Víetnamana,“ sagði Pushkov.