„Hvar er heimurinn?“

„Svo lengi sem ég lifi mun ég aldrei leyfa það að þessar þjáningar séu eðlilegar. Ég mun aldrei heimila að þetta sé eitthvað sem við sættum okkur einfaldlega við.“ Þessi ummæli lét Kayla Mueller falla í viðtali við Daily Courier fyrir tæpum tveimur árum og vísaði þar til líðan stríðshrjáðs fólks um allan heim.

Bandarísk yfirvöld staðfestu í gær að Kayla Mueller, 26 ára bandarískur hjálparstarfsmaður, væri látin en hún var í haldi Ríki íslams í Sýrlandi í átján mánuði.

Að sögn fjölskyldu hennar fór hún að landamærum Tyrklands og Sýrlands árið 2012 til þess að starfa með dönskum hjálparsamtökum í flóttamannabúðum. Þann 4. ágúst 2013 var henni rænt af liðsmönnum Ríki íslams í borginni Aleppo en þar hafði hún heimsótt sjúkrahús sem samtökin Læknar án landamæra reka.

Hafði verið einn dag í Sýrlandi

New York Times greinir frá því að Mueller hafi komið til Sýrlands daginn áður en henni var rænt og kom á sjúkrahúsið í fylgd sýrlensks manns sem hefur verið lýst sem unnusta hennar eða félaga. Hann kom á sjúkrahúsið til þess að laga nettengingu á skrifstofu Lækna án landamæra og kom það öllum mjög á óvart að Mueller væri með honum í för enda nánast óhugsandi fyrir útlenda hjálparstarfsmenn að vera í Sýrlandi á þessum tíma.

Starfsfólkið á skrifstofunni skaut skjólshúsi yfir þau um nóttina og ætlaði að keyra þau á umferðarmiðstöð borgarinnar daginn eftir þar sem hún átti að fara til Tyrklands aftur. En skæruliðar sátu fyrir bílnum og var henni og sýrlenskum félaga hennar rænt. Hann var síðar látinn laus en hefur neitað að tjá sig um hvað hafi gerst.

Mueller var þvinguð til þess að klæðast hijab (búningi sem hylur höfuð kvenna og háls) og látin dúsa í klefa ásamt fleiri kvenföngum, að sögn tveggja fyrrum gísla sem einnig voru í haldi á sama stað. Hún var flutt á milli staða nokkrum sinnum og segjast vitni hafa séð hana í kartöfluflöguverksmiðju í nágrenni Aleppo og eins hafi sést til hennar í fangelsi í rústum gasstöðvar í Raqqa.

Á sama tíma og margir karlar sem er haldið í gíslingu Ríki íslams þá segja konur sem hafa verið í haldi samtakanna að vel hafi verið komið fram við þær. Þetta hefur NYT eftir þremur starfsmönnum Lækna án landamæra. Að sögn evrópsks gísl sem hitti Mueller þegar hann var í haldi samtakanna í fyrra voru kvenfangar ekki barðir og ekki beittir kynferðislegu ofbeldi svo hann vissi til.

Í viðtali við Daily Courier áður en henni er rænt segir Mueller að þegar Sýrlendingar heyri að hún sé bandarísk þá spyrji þeir: „Hvar er heimurinn? Það eina sem ég get gert er að gráta með þeim, þar sem ég veit ekki svarið,“ segir Mueller í viðtalinu.

Þar kemur fram að flóttafólk hafi lýst aðstæðum fyrir henni. Þar sem börn særast þegar sprengjur sem hafa verið skildar eftir springa, ungar konur þvingaðar í hjónabönd og börn neydd í hernað. „Sýrlendingar eru deyja í þúsundavís en þeir eru að berjast fyrir réttinum að fá að tala um réttindi sem við njótum,“ segir hún í viðtalinu.

Mannúð hennar ær og kýr

Samkvæmt frétt BBC lærði Mueller við Northern Arizona háskólann í  Flagstaff og á meðan hún var í námi starfaði hún með hjálparsamtökunum Save Darfur Coalition. Hún tók þátt í mótmælum á vegum samtakanna og eins sendi hún bréf til þingmanna þar sem hún hvatti þá til þess að grípa til aðgerða vegna ástandsins í Darfur héraði.

Á minningarsíðu sem sett hefur verið upp kemur fram að Kayla, sem fæddist árið 1988, ólst upp í bænum Prescott, Arizona ásamt foreldrum og eldri bróður. Hún var mikið fyrir útivist og vissi fátt skemmtilegra en að fara í tjaldútilegur upp í fjöllin.

Eftir útskrift árið 2011 starfaði hún með hjálparsamtökum á Norður-Indlandi, Ísrael og Palestínu. Þegar hún snéri aftur heim til Arizona starfaði hún á læknastöð fyrir HIV/AIDS smitaða auk þess sem hún var sjálfboðaliði í kvennaathvarfi á næturnar.

Í desember 2011 fór hún til Frakklands þar sem hún var au pair. Ástæðan fyrir því vali var löngun hennar til að læra frönsku til þess að undirbúa sig undir að starfa í Afríku. Það var hins vegar í Frakklandi árið 2012 sem hún tók ákvörðun um að fara til Sýrlands og aðstoða þá sem höfðu hrakist á flótta undan borgarastríðinu þar í landi.

Ekki enn víst um dánarorsök

Í bréfi sem foreldrar hennar hafa nú birt, en það sendi hún til þeirra á síðasta ári, segir hún að vel sé komið fram við hana í fangavistinni og hún finni huggun í trú sinni. Hún hafi lært það að jafnvel í fangelsi sé hægt að vera frjáls. „Ég er þakklát.“

Bréfið var fyrst birt opinberlega í gær, á sama degi og fjölskylda hennar og yfirvöld staðfestu færslu Ríki íslams á Twitter á föstudag um að Kayla Mueller væri látin. Samkvæmt Twitter færslu skæruliðasamtakanna lést hún í loftárás jórdanska hersins. Sú dánarorsök hefur ekki fengist staðfest af bandarískum yfirvöldum en samkvæmt heimildum Washington Post óskaði fjölskylda hennar eftir því að Ríki íslam færði sönnur á að Kayla væri látin með því að þau fengju send einkaskilaboð.

WP greinir frá því að þau hafi fengið sendar þrjár myndir af líki hennar. Miðað við áverkana er ekki hægt að úrskurða um hvort það sé rétt sem samtökin segja að hún hafi verið inni í byggingu sem var eyðilögð í loftárásum eða hvort dauða hennar bar að á annan hátt.

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að hryðjuverkamennirnir sem bera ábyrgð á dauða Mueller verði eltir uppi. „Það skiptir engu hversu langan tíma það tekur, Bandaríkin munu finna og draga til ábyrgðar þá hryðjuverkamenn sem bera ábyrgðina á ráninu og morðinu á Kaylu,“ segir í yfirlýsingu sem Obama sendi frá sér í gær.

Samkvæmt Ríki íslams lést Mueller í sýrlensku borginni Raqqa, sem er höfuðvígi samtakanna. Þangað streyma útlendingar sem vilja ganga til liðs við öfgahreyfingar eins og Ríki íslam og berjast . Er nú talið að 20 þúsund útlenskir öfgamenn hafi gengið til liðs við samtökin.

Ekki síðasti bandaríski gíslinn

Talið var að Mueller væri síðasti bandaríski gíslinn sem væri í haldi Ríki íslams en Reuters hefur  eftir talsmanni Hvíta hússins, Josh Earnest, að vitað sé um fleiri bandaríska gísla sem eru í haldi á þessum slóðum án þess að tilgreina nánar hverir það eru. Að beiðni fjölskyldu Kaylu var nafni hennar haldið leyndu allan tímann sem hún var í haldi.

Meðal þeirra sem talið er að séu í haldi Ríki íslams er breski ljósmyndarinn og blaðamaðurinn  John Cantlie en honum var rænt í nóvember 2012 í norðurhluta Sýrlands. Bandaríski blaðamaðurinn Austin Tice hvarf í Damaskus í ágúst 2012 og í síðustu viku hóf fjölskylda hans á nýjan leik að reyna að vekja athygli á hvarfi hans. Ekki er vitað hvaða samtök halda honum né heldur hvort hann er á lífi.

Undanfarna mánuði hefur Ríki íslams tekið af lífi þrjá Bandaríkjamenn, tvo Breta og tvo japanska gísla. Allir eiga þeir sameiginlegt að vera hjálparstarfsmenn eða blaðamenn.

Tveir bandarískir þjóðaröryggisstarfsmenn  sem hafa fylgst grannt með málum Kaylu Mueller frá því hún tekin höndum, segja líklegast að hún hafi látist í bardaga þar sem þeir sem héldu henni fanginni hafi ekki getað tryggt öryggi hennar.

Það erfiðasta sem Obama gerir

Þegar Reuters spurði talsmann Hvíta hússins um beiðni Muellers fjölskyldunnar um að greiða lausnarfé til þess að tryggja frelsi Kaylu sagði Earnes það stefnu bandarískra stjórnvalda að greiða ekki lausnargjald þar sem þeir peningar yrðu nýttir í að fjármagna hryðjuverkastarfsemi.

Obama sagði í viðtali við BuzzFeed News í gær að það að segja fjölskyldum gísla að Bandaríkin muni ekki greiða lausnargjald sé það erfiðasta sem hann þurfi að gera í sínu starfi. Hann varði þessa stefnu með því að segja að ástæðan fyrir þessu sé sú að ef greitt sé lausnargjald þá séu Bandaríkin ekki bara að fjármagna slátrun þeirra á saklausi fólki og styrkja samtök þeirra. Heldur einnig að gera Bandaríkjamenn að enn betri kost í huga mannræningja í framtíðinni.

Fann Guð í þjáningum annarra

Í gærkvöldi minntist fjölskylda Kaylu hennar og vísaði meðal annars til bréf sem hún sendi föður sínum á afmælisdegi hans árið 2011: „Ég mun alltaf leita Guðs. Sumt fólk finnur Guð í kirkju. Aðrir finna Guð í náttúrunni. Sumir finna Guð í ást en ég finn Guð í þjáningum. Ég hef vitað það í talsverðan tíma hvert hlutverk mitt í lífinu er: að nota hendur mínar sem tæki til þess að draga úr þjáningum.“

Kayla Mueller
Kayla Mueller AFP
Kayla Mueller
Kayla Mueller AFP
Kayla Mueller og móðir hennar Marsha Mueller.
Kayla Mueller og móðir hennar Marsha Mueller. AFP
Bréfið sem Kayla Mueller sendi fjölskyldu sinni
Bréfið sem Kayla Mueller sendi fjölskyldu sinni AFP
Kayla Mueller
Kayla Mueller EPA
Kayla Mueller
Kayla Mueller AFP
Gíslar sem hafa verið teknir af lífi af Ríki íslam
Gíslar sem hafa verið teknir af lífi af Ríki íslam AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka