Tóku fangaverði í gíslingu

AFP

Sex fangar í fangelsi í Taívan, sem sagðir eru vopnaðir, hafa tekið þrjá fangaverði í gíslingu. Fangelsið er í borginni Kaohsiung í suðurhluta landsins.

Fangarnir brutust inn í vopnaherbergi í fangelsinu og náðu þaðan fjórum rifflum og sex skammbyssum. Þeir tóku svo fangelsisstjórann og tvo aðra starfsmenn í gíslingu, að því er dómsmálaráðherra Taívan segir.

Sexmenningarnir afplána dóma vegna ýmissa brota s.s. manndráps, rána og fíkniefnamála. Þeir krefjast þess að vera látnir lausir.

Dómsmálaráðherrann segir að samningaviðræður við gíslatökumennina séu að hefjast. Þeir krefjist þess að fá að komast strax út úr fangelsinu. Fangarnir hafa skotið nokkrum viðvörunarskotum að sögn ráðherrans.

Lögreglan hefur umkringt fangelsið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert